Aðalfundur Frístundahúsafélagsins Eyrarskógur og Hrísabrekka haldinn í fundarsal Menntaskólans í Kópavogi, Digranesvegi 51, 20. mars kl. 20:00.
DAGSKRÁ:
- Fundur settur.
- Kosning fundarstjóra og fundarritara.
- Skýrsla stjórnar lesin.
- Reikningar félagsins lagðir fram.
- Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga.
- Viðurkenningar.
- Vegir og girðingar – staða mála.
- Vatnsveita – staða mála.
- Kosning stjórnar skv. 4. grein laga félagsins.
- Ákvörðun um árgjald og vatnsgjald félagsins.
- Skipun í nefndir innan félagsins.
- Önnur mál.
1. Fundur settur. Formaður Sverrir D. Hauksson bauð fundargesti velkomna.
2. Kosning fundarstjóra og fundarritara. Stungið var upp á Andrési H. Hallgrímssyni (H15) sem fundarstjóra og var það samþykkt. Stungið var upp á Sigurveigu Alexandersdóttur sem fundarritara og var það einnig samþykkt. Fundur var úrskurðaður löglega boðaður.
3. Skýrsla stjórnar. Formaður las skýrslu stjórnar (sjá skýrslu stjórnar í viðauka 1).
4. Reikningar lagðir fram. Ólafur S. Ástþórsson, gjaldkeri, lagði fram reikninga félagsins. Tekjur ársins voru 4.883.946 kr en gjöld 4.964381 kr. Tap ársins var því 80.435 kr. Sérstök grein var gerð fyrir kostnaði við öryggishliðin. Heildarkostnaður við þau er 2.522.462 sem er nokkuð lægri upphæð en þær 2.800.000-2.900.000 kr. sem gert var ráð fyrir. Innheimta hliðgjalda hefur gengið mjög vel og þann 20. mars höfðu innheimst 2.360.000. kr. Það er aðeins hærri upphæð en áætlun gerði ráð fyrir. Að þessu samanlögðu verður framlag úr sjóðum félagsins til hliðanna lægra en gert var ráð fyrir eða aðeins 164.462 kr. í stað um 800.000 kr. sem upphafleg áætlun gerði ráð fyrir.
5. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga. Guðmundur (E-2) gerði athugasemd við umfjöllun í skýrslu stjórnar um samskipti vegna beiðni félagsmanns um álit kærunefndar húsamála á ágreiningi sem fram kom á félagsfundinum í tengslum við innheimtu á gjaldi fyrir öryggishlið, vatnsgjald og skiptingu á hliðkostnaði milli Eyrarskógar og Hrísabrekku. Umfjöllunin varðaði aðkomu og viðbrögð framkvæmdastjóra Landssambands sumarhúsaeigenda og formanns Landssambandsins (þ.e. Guðmundar) að ósk stjórnar Frístundahúsafélags Eyrarskógar og Hrísabrekku um aðstoð við að svara áðurnefndum kærum (mál þetta er nánar rakið í skýrslu formanns sem birt er með fundarfrásögn sem viðauki). Guðmundur sagði að aðkoma sín að málinu hefði verið að hann hefði í sumar borið undir framkvæmdastjóra tölvupóst sem hann ætlaði að senda á alla félaga í frístundafélaginu. Tölvupósturinn varðaði tillögu stjórnar að leggja til að félagsmenn án húsa á lóð yrðu ekki krafðir um greiðslu á öryggishliði. Framkvæmdastjórinn var sammála því sjónarmiði sem þar kom fram. Guðmundur sagði einnig að framkvæmdastjórinn hefði um haustið tjáð sér að Sverrir hefði haft samband við hann vegna erindis félagsmanns til kærunefndar og hann hefði þar séð að tölvuskeyti mitt væri meðal gagna í málinu. Hann taldi sig því vanhæfan að verða við óskum Sverris. Guðmundur sagði að þeir hefðu rætt fyrir löngu áður en þetta mál kom upp hvernig bæri að taka á því þegar félagsmaður og stjórn félags greindi á um málefni og félagið ætti aðild að Landssambandinu og þar með hver félagsmaður. Hann benti í þessu sambandi á að Húseigendafélagið tæki afstöðu til sjónarmiða annars aðilans þegar ágreiningur væri milli íbúðareiganda og stjórnar húsfélags sem væri aðili að Húseigendafélaginu.. Guðmundur greindi einnig að hluta frá niðurstöðum Kærunefndar í málinu en þær höfðu verið birtar tilkynntar álitsbeiðanda með símatali sama dag og aðalfundur var haldinn. Stjórninni höfðu hins vegar ekki borist úrskurðir kærumálanna og því gat hún ekki með eðlilegum hætti brugðist við því sem greint var frá um niðurstöður þeirra á fundinum.
Guðmundur fagnaði því að stjórn hefði sett upp heimasíðu og hvatti væntanlega stjórn til að viðhalda henni. Ennfremur þakkaði hann formanni og konu hans fyrir að hafa boðið félögum í bústað sinn að afloknum vinnudegi og lagði til að næsta stjórn héldi þessum sið áfram.
Gjaldkeri var spurður um mismunandi kostnaðartölur varðandi öryggishliðin í ársreikningi og í sérstöku yfirliti um kostnað við hliðin. Svarað var að ársreikningur miðaðist við áramót en í sérstakri greinargerð um kostnað við hliðin væri allur kostnaður við þau upp talinn. Þannig hefðu bæst við reikningar sem voru ógreiddir um áramót og eins hefðu innheimst gjöld vegna hliðanna eftir áramót.
Spurt var um í hverju kostnaður við vegaframkvæmdir fælist og var svarað að þar væri alfarið um að ræða greiðslu til Jóns á Eyri vegna snjómoksturs í fyrravetur.
Spurt var um peningagreiðslur til félagsmanna eða styrki til ákveðinna félagsmanna. Formaður svaraði að félagið hefði styrkt einn lóðareiganda sem reið á vaðið með mál varðandi endurnýjun á leigusamningi fyrir Kærunefnd húsamála. Styrkurinn var veittur á grundvelli þess að niðurstaða á vettvangi Kærunefndar varðandi leigugjöld myndi gagnast öllum félagsmönnum þegar kæmi að endurnýjun leigusamninga.
6. Viðurkenningar. Formaður gat þess að fráfarandi stjórn hefði ákveðið að veita lítilsháttar viðurkenningu til fimm einstaklinga sem í gegnum árin hafa lagt fram verulega og óeigingjarna vinnu til félagsins. Fyrst ber þar að telja vatnsnefndarmenn, þá Sigmund Jónsson, Sigurð Grímsson og Kristleif Kolbeinsson, en þeir hafa sparað félaginu ómældar upphæðir og hlaupið til þegar á hefur bjátað í vatnsmálum. Þá fengu einnig viðurkenningu, Lúðvík Lúðvíksson (E-41) og Páll Reynir Pálsson, (E-23) fyrir mikið og fórnfúst starf í sambandi við brennu, brú og aðra starfsemi félagsins til margra ára. Af þessum heiðursmönnum voru aðeins Lúðvík og Páll viðstaddir. Birna, eiginkona Sigurðar veitti viðurkenningu til hans móttöku en viðurkenningum Sigmundar og Kristleifs mun stjórn koma til þeirra félaga. Að lokum klöppuðu fundarmenn fyrir þessum aðilum.
7. Vegir og girðingar – staða mála. Formaður gat þess að framkvæmdir varðandi vegi og girðingar yrðu ákvörðun nýrrar stjórnar. Þó gat hann um það að gaman væri ef að á næstu árum yrði unnt að rykbinda vegi innan frístundahúsalandsins betur en nú er. Þá kom fram að næsta haust mun Vegagerðin auglýsa eftir tilboðum í að leggja varanlegt slitlag á Svínadalsveginn frá Tungu inn að Kambshóli. Það gladdi greinilega fundarmenn að heyra af þessu. Loks var nefnt að brýnt væri að laga rafmagnsgirðingu Eyrarskógarmegin þar sem það væri eina leiðin til að tryggja það að ekki væru kindur í sumarhúsalandinu.
8. Vatnsveita – staða mála. Formaður þakkaði vatnsnefnd þeirra fórnfúsa starf á seinasta ári og greindi frá áætlun fyrir yfirstandandi ár en hún hljóðar uppá 1.190.000 kr. Áætluninni er skipt í sex liði og er kostnaðaráætlun gerð fyrir hvern lið byggð á ákveðnum forsendum (vélaleigu, efniskaupum o. fl.).
Liðir þessir eru:
1. Lagfæring lagna í nálægt bústað E -60.
2. Lagfæring lagna við neðstu bústaði í Eyrarskógi.
3. Lagfæring aðveitulagnar í gili.
4. Sumartenging á vatnslögn í gili.
5. Greinalokar og þrýstingsminnkarar við lóðir E-42 og E-51.
6. Óvæntar uppákomur.
Jafnframt brýndi formaður fyrir fundarmönnum mikilvægi þess að hver og einn hugaði að stöðu veitumála hjá sér og að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að frágangur sé í sem bestu lagi. Vanti fólk ráðleggingar þá eru vatnsnefndarmenn fúsir til þess að miðla sinni þekkingu og reynslu.
9. Kosning stjórnar. Fundarstjóri kallaði upp Ólaf Steingrímsson H-22 sem hafði forsvar fyrir uppstillingarnefnd. Ólafur gat þess að þar sem öll stjórnin væri nú að fara frá þyrfti að kjósa samtals fimm nýja stjórnarmenn og til þess að koma á fyrirkomulagi um að það endurtæki sig sem sjaldnast yrði nú kosið um þrjá stjórnarmenn til tveggja ára og tvo til eins árs. Ólafur gat þess síðan að eftirtaldir félagsmenn hefðu boðið sig fram til stjórnarsetu: Anna Karen Ásgeirsdóttir (H-30), formaður, tvö ár), Hlynur Sigurdórsson (H-2, tvö ár), Steini Þorvaldsson (E-77 , tvö ár), Kristófer Bjarnason (E-73 eitt ár) og Margrét Maronsdóttir (H-4, eitt ár). Ekki komu fram nein mótframboð og síðan var kjör þessarar nýju stjórnar samþykkt samhljóða. Skoðunarmenn reikninga voru kosin þau Birna Pálsdóttir (E12) og Indriði Þorkelsson (E7). Í viðauka 2 er yfirlit yfir alla stjórnar- og nefndarmenn næsta árs.
10. Ákvörðun um árgjald og vatnsgjald. Gerð var tillaga um að árgjald til félagsins verði 10.000 kr. og að vatnsgjald verði einnig 10.000 kr. Hvoru tveggja er óbreytt frá fyrra ári og var það samþykkt án mótatkvæða.
11. Skipun í nefndir innan félagsins. Vatnsnefnd verður áfram skipuð sömu mönnum og fyrr, þ.e. þeim Sigurði Grímssyni (E12), Sigmundi Jónssyni (E31) og Kristleifi Kolbeinssyni (H28). Í Veganefnd voru skipaðir Gísli Haraldsson (E-33); Guðjón I Jónsson (E-14); Sveinn Ragnarsson (H-5). Í Útivistar- og göngustíganefnd voru skipaðir Lúðvík Lúðvíksson (E41), Hafsteinn Sigurðsson (E-38) og Þórarinn B Guðmundsson (E-19).
12. Önnur mál. Nýr formaður ávarpaði félagsmenn og gat þess að félagið væri aðeins félagsmenn og ekkert annað. Að eiga sumarhús er í raun lífsstíll og það er hann sem sameinaði félagsmenn. Í skóginum og brekkunni viljum við eiga notalegar stundir og því er mikilvægt að allir félagsmenn vinni að málum með samvinnu og samstarf í huga. Þá sagðist hún örugglega eiga eftir að leita í smiðju fyrri stjórnar og formanns og þakkaði allri stjórninni fórnfúsa vinnu fyrir félagið á undanförnum árum. Að lokum færði nýi formaður hverjum fyrri stjórnarmanni fallegan blómvönd.
Hvatt var til þess að ný stjórn myndi reyna að bæta samskipti við Eyrarbændur og virkja skyldur þeirra gagnvart lóðarhöfum sem og reyna að fá þá til að sýna meiri skilning og samstarfsvilja þegar kæmi að t.d. endurnýjun leigusamninga. Í framhaldi var spurt hvort samskipti við landeigendur að Eyri væru eins erfið og stundum heyrðist. Í svari var þá vísað til mála eins og vega í Hrísabrekku sem aldrei hefðu almennilega verið kláraðir (en það átti að gera er svæðið væri fullbyggt) og eins var vatnsöflun tekin sem dæmi um atriði þar sem fólki fannst sem ekki hefði verið staðið við samninga. Lögð var áhersla á mikilvægi þess að gagnkvæmt traust ríkti á milli aðila.
Spurt var hvort vatn sem nú væri á veitunni kæmi frá Grjótá. Svarað var að það væri tekið eða kæmi undan fjallinu og var það framkvæmd sem félagið fór í á sínum tíma til að tryggja vatnsöflun.
Einn fundarmanna vildi þakka vatnsnefnd sérstaklega. Eins þakkaði hann fyrri stjórn gott starf og óskaði nýrri stjórn velfarnaðar. Annar fundarmaður tók einnig undir þetta og gat þess sérstaklega að engu máli skipti í sínum huga af hvoru svæði stjórnarmenn væru. Félagið er eitt og hagsmunir okkar allra þeir sömu. Þannig hefði fráfarandi stjórn unnið að málum og svo yrði vonandi áfram. Fundarmenn fögnuðu þessu með lófataki.
Ekki kom fleira fram á fundinum og var honum slitið um kl. 22.
Viðauki 1.
Skýrsla formanns um störf stjórnar árið 2012-2013
Á síðasta aðalfundi urðu þær breytingar á stjórn félagsins að Ásgeir Ásgeirsson hætti sem gjaldkeri og í hans stað var Pálmi Lord kosinn til tveggja ára, þá var Sigurveig Alexandersdóttir einnig endurkosin til tveggja ára. Stjórnina skipuðu því Sverrir Davíð Hauksson formaður, Ólafur S. Ástþórsson ritari, Pálmi Lord gjaldkeri, Sigurveig Alexandersdóttir meðstjórnandi, og Guðbjörg Gústafsdóttir meðstjórnandi. Pálmi sagði sig frá stjórnarstörfum 10. desember og tók þá Ólafur við gjaldkerastarfinu og Sigurveig við ritarastarfinu, og vorum við þá 4 í stjórn frá þeim tíma. Stjórnin hélt 8 formlega fundi á starfsárinu auk fjölda annarra samskipta stjórnarmanna.
Vatnsveita
Okkar góðu menn í vatnsnefndinni voru iðnir þetta árið sem og mörg undanfarin ár. Þeir komu fyrir 22 þús lítra tanki Eyrarskógar megin og er þá geymslurýmið þar orðið um 50 þús lítrar, bráðabirgðalögn var komið fyrir yfir hásumarið til að safna meira vatni, þá voru hverfin tengd saman með lögn sem fer yfir ánna, því vatnsgjöf yfir hásumar er ekki nægjanleg Hrísabrekkumegin. Í tvígang kom upp leki sem þurfti að laga strax og voru kallaðir til þess utanaðkomandi menn. Það má alltaf gera ráð fyrir einhverjum bilunum á vatnslögninni og það er mikilvægt að brugðist sé fljótt við þegar þannig vandræði koma upp. Áætlun vatnsnefndar fyrir síðast tímabil hljóðaði uppá 1,460,000 kr en kostnaður varð 1,650,000. Mismunur á þessum tölum er aðallega vegna kostnaðar við að koma tankinum fyrir og vegna útkalla út af leka. Vatnsnefndarmenn hafa notað Þórarinn á Hlíðarfæti sem verktaka við stærri framkvæmdir en einnig var kallað á annan aðila þegar lekinn kom upp síðast liðið haust.
Áætlun nefndarinnar fyrir komandi ár hljóðar uppá 1,190,000 kr.
Í vatnsnefndinni voru; Sigurður í Eyrarskógi 12, Sigmundur E 31 og Kristleifur Hrísabrekku 28. Við þökkum þeim kærlega fyrir þeirra frábæra framlag.
Vegabætur og viðhald göngustíga
Ekki voru neinar vegabætur unnar á árinu 2012 en göngustígur var lagður frá brúnni austan við ána, að öðru leyti var ekki unnið í göngustígum á liðnu starfsári. Brúin sem er yfir Grjótá var löguð, en uppstigið eyðilagðist í miklu áhlaupi síðast liðinn vetur og sá Lúlli í Eyrarskógi 41 um þá framkvæmd með aðstoð Gísla í Eyrarskógi 33
Vinnu- og útivistadagurinn
Vinnu og útivistardagur var haldinn 23. júní. Skipt var út nokkrum öspum niður við þjóðveg, aspirnar fengum við hjá þeim hjónum Birnu og Sigurði í Eyrarskógi 12.
Borið var á brúna og göngustígur frá henni var lagaður eftir mikið áhlaup frá vetrinum eins og áður sagði.
Þá var tekin upp sú iðja að slá lúpínu sem er að loka göngustígum, einnig var unnið við trjáaklippingar eftir aðalgötum í Eyrarskógi, en þar eru runnar farnir að teygja sig óþægilega mikið inná aðalgöturnar. Þá var unnið við að hysja upp gömlu girðinguna að austan verðu í Eyrarskógi. Mæting var góð og ekki var annað að sjá en fólk hefði gaman af þessari samveru.
Í lok dags kom fólk saman í Eyrarskógi 11 þar sem slegið var upp hlaðborði og lögðu allir fram veitingar að hætti skógar- og brekkubúa.
Heimasíða
Að tillögu Pálma Lord var ákveðið að koma upp heimasíðu sem hefði m.a. að geyma helstu upplýsingar um félagið, viðburði sem það stendur fyrir, fundargerðir félagsfunda o. fl. Pálmi sá alfarið um vinnu við uppsetningu heimasíðunnar og tók hann jafnframt að sér umsjón með síðunni og viðhald og þökkum við honum kærlega fyrir. Heimasíðan hefur hins vegar ekki verið uppfærð síðan Pálmi hætti í stjórn.
Verslunarmannahelgi
Engin brenna var á síðast liðnu ári, en nokkrir áhugasamir félagsmenn söfnuðust saman á laugardeginum fyrir Verslunarmannahelgi í laut við göngubrúna og kveiktu þar lítill eld og áttu góða samverustund.
Girðingarvinna og hlið
Eins og áður hefur komið fram að þá var lappað uppá gömlu girðinguna að austanverðu í Eyrarskógi. Ekki var um aðra skipulagða vinnu við girðingar á árinu en þó vitum við að nokkrir félagsmenn hafa gengið eftir rafmagnsgirðingunni og hengt upp strengi sem hafa fallið niður.
Á almennum fundi sem haldinn var í Smáranum, Dalsmára 5 í Kópavogi, í ágúst var kynnt tillaga stjórnar um að koma upp öryggishliðum fyrir bæði svæðin. Áætlun stjórnar hljóðaði upp á kr 2.800.00.-2.900.000 og að einungis byggðar lóðir skyldu greiða 20 þús kr gjald fyrir hverja lóð, en byggðar lóðir eru 106 á öllu svæðinu. Töluverð umræða varð um þessa tillögu sem m.a. tengdist kostnaðarskiptingu milli Eyrarskógar og Hrísabrekku og eins að innheimtu kostnaðar einungis af byggðum lóðum. Að lokum var tillagan hins vegar samþykkt þar sem 36 sögðu já, 2 nei og 3 skiluðu auðu. Frekari upplýsingar um umræður er að finna í ítarlegri fundargerð sem send var öllum félagsmönnum og eins er hana að finna á heimasíðu félagsins (eyrarskogur.is).
Í framhaldi af fundinum fór formaður að leyta tilboða og fengu 5 eftirtaldir aðilar útboðslýsingu: Öryggismiðstöðin, Securitas, Öryggisgirðing, Sindra stál og Nortek. Formaður fékk síðan þá Jón Guðlaugsson Eyrarskógi 50 og Sigurð Grímsson Eyrarskógi 12 sér til halds og trausts við skoðun á tæknilegum atriðum tengdum þeim hliðum sem boðið var upp á. Áður en ákvörðun var tekin var fundað með þremur af þessum 5 aðilum sem okkur leist best á.
Í framhaldi af þessu var hafist handa, Gísli Eyrarskógi 33 sá um að grafa fyrir stöplum og skurði fyrir lögn á milli hliða. Þá voru Guðjón Eyrarskógi 14 og Jón Eyrarskógi 82 ásamt formanni honum til halds og trausts. Jarðvegur var mjög grófur þar sem skurðurinn var tekinn og þurfti því að fá fínni grús frá Þórarni sem lögð var yfir lögnina, einnig var sett fínni grús undir rafmagnsinntakskassann. Í framhaldi af þessu sáu Guðjón og formaður um að draga lögnina í á milli hliða. Hlynur Sigurdórsson Hrísabrekku 2 sá alfarið um að setja upp rafmagnskassa og tengja hliðin, þá hefur hann einnig tekið við umsjón með hliðunum eftir að Pálmi hætti í stjórn og á hann miklar þakkir skilið fyrir að hafa hlaupið þar í skarðið. Ásamt því að opna hliðin með GSM síma var boðið uppá möguleika að opna hliðin með fjarstýringu. Kostnaður við hverja fjarstýringu var kr 3400 kr og greiðir hver og einn það gjald, einungis þeir sem hafa greitt upphafsgjaldið fá að kaupa sér fjarstýringu. Gíróseðlar fyrir hliðgjaldi voru síðan sendir út í byrjun nóvember.
Vert er að taka sérstaklega fram að gíróseðlar voru sendir á alla aðila þrátt fyrir fyrri samþykkt félagsfundar um að rukka aðeins hliðgjald af byggðum lóðum. Það var gert vegna þess að einn félagsmaður hafði kært stjórnina (eða félagið til Kærunefndar húsamála) fyrir hina fyrri samþykkt. Ég mun víkja nánar að þessari kæru hér rétt á eftir.
Vert er líka að taka fram að á fundinum í ágúst var marg tekið fram að þeir sem ekki hafa byggt á lóðum sínum myndu þurfa, þegar þar að kæmi, að greiða gjaldið til þess að fá aðgang um hliðin. Þetta sama var og sagt í tölvupóstum sem sendir voru félagsmönnum til þess að upplýsa um aðgang um hliðin. Í framhaldi að þessu fékk stjórnin tölvupósta frá nokkrum félagsmönnum sem voru í þessari stöðu og vildu fá sama aðgang og aðrir. Þeir greiddu því gjaldið þrátt fyrir að hafa ekki ennþá byggt. Innheimta á gjaldinu fyrir hliðin hefur gengið mjög vel og aðeins eiga 2 eða 3 aðilar á byggðum lóðum eftir að greiða það. Þann 16. mars 2013 höfðu samtals 114 aðilar greitt gjaldið.
Kæra
Ég ætla nú að fara nokkrum orðum um kæru í þremur liðum frá Kristni Sigmarssyni Eyrarskógi 91 sem barst stjórn þann 10. september síðastliðinn í gegnum Kærunefnd húsamála. Kæran er í fyrsta lagi um að stjórn félagsins ætlaði aðeins að senda gíróseðla vegna framkvæmda við hliðin til þeirra aðila sem eru með byggðar lóðir, síðan er í öðru lagi kært fyrir það sama gagnvart innheimtu á vatnsgjaldinu og loks í þriðja lagi er kært fyrir það ákveðið hafði verið að rukka sama hliðgjald á byggða lóð í Eyrarskógi og Hrísabrekku.
Í framhaldi af kærunni ákvað stjórnin að leita til framkvæmdastjóra Landsambands sumarhúsaeigenda, Sveins Guðmundssonar, um aðstoð við að svara henni og var honum því send kæran og greinargerð Kristins. Sveinn svaraði eftir stuttan umhugsunartíma að hann gæti ekki tekið þetta verkefni að sér þar sem m.a. formaður Landsambandsins, Guðmundur Guðbjarnason Eyrarskógi 2, væri á sömu skoðun í þessu máli og Kristinn Sigmarsson. Sveinn útvegaði okkur síðan annan lögmann, Gísla Kr. Björnsson, hjá Lagarökum, og hann svaraði kærunni fyrir hönd félagsins eftir að hafa fengið upplýsingar um málið frá stjórninni. Þess má geta hér að vinna lögmannsins kostaði félagið 200 þúsund kr.
Í framhaldi af þessu barst andsvar frá Kristni, sem stjórnin fór yfir og svaraði svo sjálf. Ekki hafa borist frekari bréf frá Kærunefndinni en starfsmaður nefndarinnar hefur nýlega upplýst að málið verði tekið fyrir í byrjun apríl.
Megin efnið í svari lögmannsins er að stjórnin ákvað framkvæmd innheimtu á grundvelli samþykkt félagsfundar. Þá segir lögmaður svo vitnað sé í greinargerð hans: ,,hér virðist eingöngu vera deilt um það útfærsluatriði hvort að umráðamenn óbyggðra lóða séu krafðir um þátttöku í kostnaðinum þegar til hans stofnast eða hvort innheimta megi kostnaðinn þegar þeir hafa byggt sumarhús á lóðum sínum“.
Varðandi þriðja lið kærunnar þá er best að vitna hér í svar lögmannsins sem sagði. ,,Um þennan lið telst nauðsynlegt að taka fram að ekki fæst séð hvernig honum verður svarað með skýrum hætti, þar sem spurningin sjálf dregur úr skýrleika sem draga má af nafni félagsins. Um er að ræða tvö svæði, Eyrarskóg og Hrísabrekku, en um svæðin hefur verið stofnað eitt félag sem ber heiti svæða Frístundahúsafélags Eyrarskógar og Hrísabrekku“.
Í svari okkar við andsvari Kristins var því bætt við sem ekki hafði komið fram í svari lögmanns okkar að innheimtuseðlar hefðu þrátt fyrir samþykkt félagsfundar verið sendir til allra félagsmanna, þar sem ekki var farið yfir nafnalistann áður en hann fór í bankann. Þannig var, þegar allt kom til alls, farið að innheimtu samkvæmt því sem Kristinn virðist telja réttast, en engu að síður telur stjórn fullkomlega fullgilda og réttlætanlega þá ákvörðun sem félagsfundur ákvað að hafa við innheimtu (þ.e. að innheimta í fyrstu einungis af byggðum lóðum).
Lokaorð
Það er von okkar sem nú erum að hætta í stjórn að ekki komi til samskipta eins og hér að ofan hafa verið rakin, gagnvart þeim sem bjóða sig til þjónustu fyrir félagið í framtíðinni. Við verðum að geta treyst þeim sem kosnir eru í stjórn og til þess að fara með umboð félagsins á hverjum tíma. Ef um óánægju er að ræða hjá einhverjum einstaklingum þá er aðalfundur (eða jafnvel sérstakir fundir) rétti vettvangurinn til þess að skýra mál og leysa. Það er ömurlegt að þeir sem gefa sig til starfa fyrir félagið í frítíma sínum þurfi í ofanálag að eyða kröftum í formleg kærumál frá félagsmönnum, kærumál sem fyrirfram er vitað að litlu sem engu breyta fyrir félagið og einungis eru til þess fallin að sá fræjum tortryggi milli félagsmanna. Sama á reyndar við um skeyti það sem Pálmi Lord sendi frá sér þegar hann sagði sig lausan frá gjaldkerastarfinu en þar ýjaði hann að því að stjórnarmenn væru að fara illa með fjármuni félagsins. Þá vonumst við einnig til þess að félagsmenn noti ekki heimasíðu félagsins til bera órökstuddar sakir upp á aðra í félaginu.
Nú er það svolítið sérstakt að allir aðilar innan stjórnar hætta á sama tíma og kemur þar eftirfarandi til. Kjörtímabil þriggja stjórnarmanna sem kosnir voru til tveggja ára fyrir tveimur árum rennur nú út og hyggjast þeir ekki gefa kost á sér áfram. Gjaldkeri sem í fyrra var kosinn til tveggja ára sagði sig frá stjórnarstörfum í desember síðast liðnum og þá vill annar aðili, sem var kosinn til tveggja ára á síðast liðnu ári, losna úr stjórn. Við þetta verður ekki ráðið og þegar ný stjórn verður kosin hér á eftir þá verða 3 aðilar kosnir til ára og 2 til eins árs.
Töluverð starfsemi er orðin á vegum félagsins og því er mikilvægt að sem flestar hendur komi að þeim verkefnum sem þarf að leysa, félagið er ekki annað en við sjálf og því verða allir að leggja sitt af mörkum þegar kjósa þarf í stjórn og ráð innan þess.
Við sem nú hverfum frá stjórnarstörfum óskum nýrri stjórn alls hins besta og vonumst til að hún haldi áfram þeirri uppbyggingu og því góða starfi sem teljum okkur hafa reynt að viðhafa á undanförnum árum.
Viðauki 2. Stjórn og nefndarmenn 2013-14
Stjórn
Anna K Ásgeirsdóttir, formaður, H-30
Hlynur Sigurdórsson, ritari, H-2
Steini Þorvaldsson, gjaldkeri, E-77
Margrét Maronsdóttir, meðstjórnandi, H-4
Kristófer Bjarnason, meðstjórnandi, E-73
Skoðunarmenn reikninga
Birna Þ. Pálsdóttir, E-12
Indriði Þorkelsson, (E-7)
Vatnsnefnd
Sigurður Grímsson, E-12
Sigmundur Jónsson, E-31
Kristleifur Kolbeinsson, H-28
Veganefnd
Gísli Haraldsson, E-33
Guðjón I Jónsson, E-14
Sveinn Ragnarsson, H-5
Útivistar- göngustíganefnd
Lúðvík Lúðvíksson, E-41
Hafsteinn Sigurðsson, E-28
Þórarinn B Guðmundsson, E-19