Aðalfundur Hagsmunafélags Eyrarskógar og Hrísabrekku 2012

1. Fundur settur. Formaður Sverrir D. Hauksson bauð fundargesti velkomna.

2. Kosning fundarstjóra og fundarritara. Stungið var upp á Andrési H. Hallgrímssyni (H15) sem fundarstjóra og var það samþykkt. Stungið var upp á Ólafi S. Ástþórssyni sem fundarritara og var það einnig samþykkt. Fundur var úrskurðaður löglega boðaður og fundarstjóri gat um breytingu á dagskrá þar sem 12. liður  (erindi Halldórs Sverrissonar) var flutt fram í dagskránni og tekið fyrir sem liður nr. 6. Aðrir fundarliðir fluttust því aftur um eitt sæti.

3. Skýrsla stjórnar. Formaður las skýrslu stjórnar (sjá skýrslu stjórnar í viðauka).

4. Reikningar lagðir fram. Ásgeir Ásgeirsson, gjaldkeri, lagði fram reikninga félagsins. Tekjur ársins voru 2.550.344 kr en gjöld 1.155.272 kr. Tekjur umfram gjöld voru því 1.395.072 kr.

5. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga. Spurt var um afskriftir og hverju þær tengdust. Gjaldkeri svaraði að þær tengdust lóðarhöfum sem lent hafa í gjaldþroti og eins deilum lóðarhafa og landeigenda, þ.e. þar sem leigjendur í vandræðum vilja losna undan samningum en fá það ekki og neita því að greiða hagsmunafélaginu. Ársreikningur var síðan samþykktur samhljóða af fundarmönnum. Þá var Ásgeiri sérstaklega þakkað hve vel hefði tekist til með innheimtu gjalda á sl. ári.

6. Skógrækt. Halldór Sverrisson, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands og sérfræðingur á Rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins, flutti fróðlegt erindi um Stöðu í skógrækt og nýja strauma. Í lok erindis svaraði Halldór nokkrum spruningum tengdum efni erindisins.

7. Vegir og girðingar – staða mála. Formaður gat um að á komandi sumri þyrfti að bera í vegi og að sem fyrr yrði reynt að gera þar eins mikið og peningar leyfðu. Lítillega hefur verið kannað með verð á ofaníburði en þau mál verða könnuð frekar áður en til framkvæmda kemur. Páll (E45A) gerði ítarlega grein fyrir ástandi girðinga og hvað helst væri til ráða til þess að bæta þar úr. Taldi Páll að vírar væru í ágætis standi en staura þyrfti að endurnýja. Þá þarf einnig að yfirfara rafmagnsgirðingu til að tryggja að hún skili ætluðu hlutverki. Formaður kallaði eftir rafvirkjum meðal fundarmanna til þess að koma að lagfæringu á rafmangsgirðinu. Hér er þetta ákall endurtekið og því einnig beint til fagmanna sem ekki sóttu aðalfund.

8. Vatnsveita – staða mála. Formaður þakkaði vatnsnefnd þeirra fórnfúsa starf á seinasta ári og greindi frá áætlun fyrir yfirstandandi ár en hún hljóðr uppá 1.460.000 kr, og þar er stærsti liðurinn áform um að bæta við veituna 22 þúsund lítra tanki Eyrarskógarmegin. Jafnfram brýndi formaður fyrir fundarmönnum mikilvægi þess að huga hverjum og einum að stöðu veitumála hjá sér og gera þær allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að frágangur sé í sem bestu lagi. Vanti fólki ráðleggingar þá eru vatnsnefndarmenn fúsir til þess að miðla sinni þekkingu og reynslu.

9. Kosning stjórnar. Samkvæmt 4. grein laga bar að kjósa tvo stjórnarmenn. Ásgeir Ásgeirsson sem verið hefur gjaldkeri undanfarin ár, gaf ekki kost á sér til endurkjörs og var Pálmi Lord Hamilton (E16) kosinn í hans stað. Sigurveig (E29) var endurkjörin til tveggja ára. Fyrir í stjórn eru Sverrir D. Hauksson (E13), Ólafur S. Ástþórsson (E89) og Guðbjörg Gústafsdóttir (E1). Skoðunarmenn reikninga voru kosin þau Birna Pálsdóttir (E12) og Kristinn R. Gunnarsson .

10. Ákvörðun um árgjald og vatnsgjald. Gerð var tillaga um að árgjald til félagsins verði 10.000 kr. og að vatnsgjald verði einnig 10.000 kr. Hvoru tveggja var samþykkt án mótatkvæða.

11. Skipun í nefndir innan félagsins. Vatnsnefnd verður áfram skipuð sömum mönnum og fyrr, þ.e. þeim Sigurði Grímssyni (E12), Sigmundi Jónssyni (E31) og Kristleifi Kolbeinssyni (H28). Sama er að segja um Vega- og útivistarnefnd en hana skipa Lúðvík Lúðvíksson (E41) og Gísli Haraldsson (E33)

12. Endurskoðun á lögum (samþykktum) félagsins. Guðmundur Guðbjarnarson (E2) kynnti tillögur að nýjum samþykktum fyrir félagið en þær höfðu verið sendar til félagsmanna með fundarboði. Markmiðið með því að endurskoða fyrri lög er að félagið hafi lög/starfsreglur sem samræmast eins og frekast er unnt þeim lögum um frístundabyggð sem samþykkt voru á Alþingi í júlí 2008. Guðmundur fór í gegnum helstu greinar hinna nýju laga og komu þá fram nokkrar spurningar sem m.a. tengdust nafni félagsins og skipan og kosningu stjórnar. Þessum spurningum svaraði Guðmundur og túlkaði skilning stjórnar. Hinar nýju samþykktir voru síðan bornar undir atkvæði og þær samþykktar. Einn greiddi atkvæði á móti. Í tengslum við lagbreytingarnar kom enn á ný fram óánægja félagsmanna með ýmis atriði tengd samskiptum við Eyrarhjón og Eyrarbyggð og var greinilegt að langlundargeð marga gagnvart óleystum málum svo sem vatnsveitu og leigusamningum er senn á þrotum.

13. Önnur mál. 13.1. Á fundinn mættu tveir fulltrúar Öryggismiðstöðvarinnar til þess að kynna hvað fyrirtækið hefði upp á að bjóða í sambandi við hlið við innkeyrslu inn á sumarhúsasvæðið en eins og kunnugt er tengist umræða um þetta nú innbrotum í bústaði upp á síðkastið. Fram kom að hlið eins og helst var mælt með kostar um eina milljón kr. fyrir utan uppsetningu og tenginu við rafmagn. Fundarmenn voru sammála um mikilvægi þess að reyna að koma í veg fyrir frekari innbrot og skemmdir þjófagengja og var stjórn falið að vinna áfram að þessu máli. Þegar kostnaði við hlið eins og hér um ræðir hefur verið deilt niður á hvert hús er hann í raun mjög lítill miðað við það öryggi og þá vörn sem það er talið geta veitt. 13.2. Í tengslum við umræðu um um innbrotamál greindi Ólafur Ólafsson (E11) frá umræðum á fundi þar að lútandi sem hann hafi sótt hjá sveitarfélaginu s.l. haust. Frásögn hans í þeim efnum var ekki ósvipuð því sem Öryggismiðstöðvarmenn höfðu greint frá. 13.3. Fram kom fyrirspurn um það hvernig best væri fyrir lóðarhafa að bera sig að ef samningar þeirra væru að renna út. Formaður taldi  réttast í þessu sambandi að fólk setti sig í samband við Svein hjá Landssambandi sumarhúsaeigenda og leitaði ráða hjá honum. Þegar eru fallinn a.m.k. einn dómur í máli um lóðarleigu sem tengist okkar svæði og eins er Sveinn með í vinnslu nokkur mál sem svæðinu tengjast. Mikilvægt er í þessu sambandi að fólk kynni sér einnig lög um frístundabyggð og gæti að því að tryggja rétt sinn með því að bera sig að  á þann hátt sem lögin mæla fyrir um. Lög um frístundabygg má nágast á vef Alþingis: www.althingi.is/lagas/nuna/2008075.html

Formaður steig að lokum í pontu og þakkaði Ásgeiri Ásgeirssyni fyrir vel unnin störf í þágu félagsins, þá gat hann þess einnig að í fyrra hefði hann gleymt að þakka Helga Sigurðssyni sem þá hvarf úr stjórn fyrir það sama. Fundarmenn tóku undir þetta með lófaklappi.

Ekki kom fleira fram á fundinum og var honum slitið um kl. 22:45.

Viðauki .

Skýrsla stjórnar fyrir árið 2011-2012

Á síðasta aðalfundi gekk Helgi Lárusson úr stjórn og var Guðbjörg Gústafsdóttir kosin í hans stað.  Stjórnina skipuðu Sverrir Davíð Hauksson formaður, Ólafur S. Ástþórsson ritari, Ásgeir Ásgeirsson gjaldkeri, Sigurveig Alexandersdóttir meðstjórnandi, og Guðbjörg Gústafsdóttir meðstjórnandi  Stjórnin hélt 4 formlega fundi á starfsárinu auk fjölda annarra samskipta stjórnarmanna.

 

Vatnsveita

Það minnkar ekki sú vinna sem okkar góðu vatnsnefndamenn vinna fyrir félagið, það er miður þar sem þeir þurfa að sinna útköllum þegar fólk hefur ekki gengið nægjaleg vel frá sínum lögnum. Þá var vatnslögnin bætt á ýmsum stöðum, krönum bætt við, þannig að nú er hægt að loka fyrir minni svæði í einu ef eitthvað kemur fyrir lögnina. Einnig hafa þeir verið að útrýma öllum bláum tunnum og setja krana í staðinn. Allt hefur þetta kostað töluverða fjármuni. Áætlun vatnsnefndarmanna hljóðaði uppá 1,200,000 kr og þeir héldu kostnaði vel innan þeirrar áætlunar.

 

Áætlun nefndarinnar þetta árið hljóðar uppá 1,460,000 kr (sjá sundurliðun i töflu), en m.a. þarf að bæta við einum tanki Eyrarskógarmegin, en það er 22 þús. lítra tankur.

 

 

 

Í vatnsnefndinni voru; Sigurður í Eyrarskógi 12, Sigmundur Eyrarskógi 31 og Kristleifur Hrísabrekku 28. Við þökkum þeim fyrir þeirra frábæra framlag.

 

Vegabætur og viðhald göngustíga

Ekki voru neinar vegabætur unnar á árinu 2011, utan þess að veghefill fór yfir vegina í júní.. Þörf er á að bera fínna lag í flestar götur í hverfinu.

Nýr göngustígur var lagður frá brúnni austan við ána, að öðru leyti var ekki unnið í göngustígum á liðnu starfsári.

Borið var á brúna góðu sem er yfir Grjótá.  Þá má geta þess að uppsigið á brúnni að austanverðu brotnaði í hlaupi sem varð í ánni í vetur, þetta þarf að laga nú á næstu vikum.

Girðing

Girðing í Eyrarskógi heldur ekki fé, hana þarf að laga og koma á hana straumi, beini ég því til rafvirkja á svæðinu að gefa sig fram til þeirra verka.

Þá hefur vaknað upp umræða um að koma fyrir hliði fyrir innkeyrsluna Eyrarskógarmegin likt og þegar er komið í Hrísabrekku.  Vonast ég eftir umræðu um það undir liðnum Önnur mál hér á eftir

 

Vinnu- og útivistadagurinn

Vinnu og útvistardagur var haldinn 29. júní.  Gróðusettar voru aspir niður við þjóðveg, hugsunin með þessu er að gera aðkomuna að svæðinu skemmtilegri og loka svæðið betur frá þjóðveginum. Aspirnar fengum við hjá þeim hjónum Birnu og Sigurði í Eyrarskógi 12.

Götuskilti í Hrísabrekku var lagað, borið var á brúna og göngustíg breytt frá henni.

Í lok dags kom fólk saman í Eyrarskógi 11 þar sem slegið var upp hlaðborði og lögðu allir fram veitingar að hætti skógar- og brekkubúa.

 

Brenna

Brenna var haldin með hefðbundnum hætti. Fjöldi fólks kom þar saman og skemmti sér við söng og samveru, brennustjóri var Lúðvík Lúðvíksson

 

Póstlistinn

Breytingar eru stöðugt gerðar á póstlistanum, við hvetjum fólk til að upplýsa um ný netföng og símanúmer.

Félagsgjöld

Innheimta félagsgjalda hefur gengið mjög vel, nokkrir aðilar hafa þó ekki greitt, en hafa gert grein fyrir stöðu sinni.

Vatns og leigumál

Eins og kom fram í skýrslu frá síðasta ári þá höfum við verð að reyna ná skriflegum samningi eða samkomulagi við hjónin á Eyri vegna vatnsmála. Óskir stjórnar hafa snúist um það að koma því á hreint rétti okkar til afnota af vatnsbólum og umráðarétti yfir lögninni, þá viljum viljum hafa það þannig að nýjir aðilar eða óbyggðar lóðir greiði tengigjald, þar sem við núverandi lóðarhafa höfum lagt mikla fjármuni í lagnir, krana og tanka. Við fengum Svein hjá Landssambandinu til að aðstoða okkur í þessum viðræðum en það hefur því miður engu skilað. Ég hafði þá samband við Snorra Viðarsson sem er okkar tengiliður við þau hjón og hann tjáði mér að þau vildu ekkert gera. Þetta er því miður staðan í dag.

Einnig höfum við reynt að ræða við þau hjón um leigugjaldið, og m.a. á tímabili var umræðan farin að ganga út á eitthvað jafnaðargjald fyrir allt hverfið, en því miður hafa þessi mál lítið sem ekkert þokastog þar er ekki hægt að kenna um vilja- eða áhugaleysi stjórnarinnar.

Lokaorð

Enn og aftur  viljum við hvetja félagsmenn til að ganga betur frá vatnslögnum, en það eru því miður nokkrir sem ekki hafa gengið nægjanlega vel frá sínum lögnum. Þá beinum við þeim tilmælum til lóðarhafa  að virða hámarkshraða og hvetja gesti ykkar til að gera slíkt hið sama. Þá vill stjórnin vekja athygli á því að  akstur móturhjóla og fjórhjóla alveg bannaður á þeim göngustígum sem lagðir hafa verið í hverfinu og allur hávaði af þessum tækjum er mjög hvimleiður.

Þessi færsla var birt undir Aðalfundur. Bókamerkja beinan tengil.

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.