Vorpistill framkvæmdanefndar

                                                                            Miðjan maí 2023

Ágætu skógarbúar framkvæmda og veganefnd hafa staðið í ströngu á vormánuðum. Eftir að frost fór að gefa eftir þá komu upp víðtækir lekar á vatnslögnunum okkar sem þó voru að mestu bundnir við heimæðar. Við skoðun kom í ljós að allar eldri heimæðar eru komnar á tíma og eru ýmist farnar að gefa sig vegna tæringar eða vegna slæms frágangs. Þetta veldur því að áframhald verður á vatnsvandræðum okkar sem gæti leitt af sér óþægindi fyrir alla skógarbúa jafnt þá sem gert hafa hjá sér lagfæringar eins og hina sem ekkert hafa aðhafst í sínum málum.

 Það liggur nokkuð ljóst fyrir hvar þörf er á lagfæringum og er nefndin tilbúin að gefa ráð og finna aðila til að lagfæra og endurnýja lagnir og viðurkennda loka  þar sem þörf er á. Á haustmánuðum mega þau hús sem ekki eru með sín mál í lagi eiga von á að verða aftengd við veitukerfið.

 Vegir hafa verið lagfærðir að hluta , borið í og holufyllt ásamt ræsisviðgerð. Þessari vinnu verður haldið áfram og verður reynt að ræsa fram þar sem vatn hefur safnast upp meðfram vegum.  Hrísabrekkumegin hafa framtakssamir íbúar farið um og holufyllt og er það virðingarvert framtak og þakkað fyrir.

Vinnudagur er fyrirhugaður 10 júní og er aðaláhersla lögð á að klippa og laga til í sínu nærumhverfi, stígurinn að lundinum verður lagaður og breikkaður og hendinni tekið til varðandi fúavörn og merkingar. Kurlarinn verður á staðnum og grill og gæðastundir hafðar í hávegum en það verður auglýst nánar síðar.

 Útivistarnefnd hefur veg og vanda að vinnudeginum og mun framkvæmdanefndin standa þétt við bakið á henni.

Þreytumerki eru farin að sjást á þeim aðilum sem borið hafa hitann og þungann af vatnsmálunum og er sem betur fer farið að hilla undir endann á lekamálum. Það breytir ekki því að stór partur af lífsgæðum skógarbúa er þetta góða vatn sem við höfum aðgang að og er undir hverjum og einum að hafa hlutina í lagi sín megin. Það er einnig að aukast að fólk fái sér gegnumstreymis heita potta við bústaðina en kerfið okkar leyfir ekki slíkt. Vatnsbúskapurinn okkartakmarkast við tankana íEyrarskógi og Hrísabrekku og bera þeir ekki sírennslispotta. Það að vera með rafmagnspott og skifta út vatni 2-3 á ári er skaðlaust en 2 gegnumstreymispottar tæma hjá okkur tankana á sólarhring. Það er vinsamleg ábending frá framkvæmdanefnd að ganga vel um vatnið okkar og alls ekki dæla því óhindrað gegnum kerfið. Sé þessu ekki sinnt verða settir hemlar á sem takmarka innrennsli hjá viðkomandi.

Þeir aðilar sem þurfa aðstoð eða upplýsingar varðandi vatnsmálin eða varðandi endurnýjun á heimæðum geta haft samband við Guðjón  í síma 6177122 eða Gísla í síma 8970731

Kveðja Framkvæmdanefnd.

Birt í Óflokkað | Slökkt á athugasemdum við Vorpistill framkvæmdanefndar

Fundargerð aðalfundar 2023

fundur haldinn í 26 apr. kl 20:00 í safnaðarheimili Kársneskirkju

  1. Fundur settur

Kosning fundarstjóra og fundarritara – Anna Karen kosin sem fundarstjóri og Harpa Halldórsdóttir sem fundarritari. Formaður setur fundinn og kynnir dagskrá fundarins.

  • Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins

Ásgeir Ásgeirsson formaður fer yfir skýrslu stjórnar. Breytingar urðu á stjórn á árinu 2022:

Ásgeir Ásgeirsson formaður, Sólveig Birgisdóttir gjaldkeri, Hákon Jónas ritari, Olga Kristjánsdóttir og Ingi GunnarJóhannsson varamenn. Formlegir fundir stjórnar á tímabilinu voru sjö. Formaður fjallar næst um framkvæmdanefnd en þar voru fimm fundir haldnir á árinu. Formaður fer yfir liðinn vetur:

  • Mikil vandkvæði með vatn á svæðinu á tímabilinu vegna frosts í jörðu og almennt var harður vetur. Stjórn ítrekar við alla sumarbústaðareigendur að skoða vel sína bústaði.
  • Keyptir voru vatnshæðaskynjarar á tímabilinu og settir í vatnstanka. Með því er hægt að fylgjast náið með vatnsstöðu tankanna í gegnum netið. Hægt verður að skoða vatnsstöðuna á heimasíðu félagsins þegar uppsetningu er lokið.  Stefnt skal að því að laga dýpt lagna á svæðinu fyrir næsta vetur.
  • Vegir og vegamál – heflað var einu sinni á tímbilinu
  • Snjómokstur var einu sinni á tímabilinu.
  • Á tímabilinu voru göngustígar lagfærðir og bekkir endurnýjaðar. Halda skal áfram á yfirstandandi tímabili með lagfæringar á lundinum og aðgengi að honum, Eyrarskógarmegin. Einnig er þörf á grisjun á lúpínu þar sem lagnir liggja meðfram veginum og einnig getur reynst erfitt fyrir bíla að mætast á veginum.
  • Girðingar hafa haldið en fjárfest var í rafstöðvum og sólarsellum.
  • Saltdreifari var keyptur og notaður til að binda slitlag.
  • Verslunarmannahelgin verður á sínum stað.
  • Formaður ítrekar að öll þessi vinna sé ekki sjálfgefin og sé í sjálfboðavinnu.
  • Reikningar félagsins lagðir fram

Fundarstjóri leggur til að reiknngar verði lagðir fram. Sólveig gjaldkeri fer yfir.

               Rekstrarreikningur 1.12022 – 31.12. 2022:

Heildartekjur – 3.929.242

Heildargjöld  – 3.360.739

Tekjur umfram gjöld – 568.503

Efnahagsreikningur 31.12.2022

Eignir     3.835.599                                                        Eigið fé og skuldir 3.835.599

Sólveig útskýrir nánar nokkra liði rekstrarreiknings: Enginn kostnaður við ruslagáma á árinu 2022 miðað við 2021 þar sem ekki voru fengnir gámar. Enginn reikningur fyrir snjómokstrinum hefur enn borist.

  • Umræður um skýrslu stjórnar og ársreiknings félagsins

Engar fyrirspurnir komu úr sal vegna ársreiknings félagsins. Ársreikningurinn þar með samþykktur.

  • Ákvörðun árgjalds

Formaður leggur til að halda árgjaldi óbreyttu. Engar athugasemdir komu fram. Samþykkt

Steini E77 kemur með athugasemdir við uppsetningu fundarins og hefði viljað hafa yfirferð á rekstar og framkvæmdanefnd áður en árgjaldið var ákveðið og samþykkt,  þar sem áætlaður kostnaður er hærri en heildartekjur síðasta árs. Endurtekur eldri tillögu um að leggja bundið slitlag á vegina.

Ólafur E89 – spyr hver sé besta leiðin við rekja vatnsleiðslur án þess að þurfa að grafa langar vegalengdir að bústaðnum.

Guðjón í Framkvæmdanefnd svarar  í stuttu máli að ef maður veit hvar á að byrja þá er hægt að elta. Guðjón notar tæki segir ef til staðar er holrými þarna undir.

Formaður svarar fyrirspurn vegna uppsetningu á dagskrá fundarins. Á síðasta ári var árgjaldið hækkað mikið og því gert ráð fyrir að fara í bundið slitlag en sökum þess ástands hefur verið viðvarandi í vetur fer allur peningurinn fer í vatnið að þessu sinni. Hann samþykkir að aðafundurinn hafi e.t.v verið full fljótur  að samþykkja gjaldið þar sem ekki var búin að kynna framkvæmdaáætlun ársins 2023.

Gísli E33 – telur það afar bjartsýnt að tala um malbik á vegina. Áður hafi borist tilboð í afmarkaðan kafla upp á 7,5 milljónir og að það sé 8 ára gamalt verð. Vegirnir séu nokkuð góðir og að nýta eigi frekar fjármagnið í að laga vatnslagnir. Hann ráðleggur skógarbúum að keyra hægar.

Sólveig gjaldkeri – þakkar fyrir holuálfana sem eru að fylla í holurnar á veginum.

Íbúar í bústað E73 – vilja koma á framfæri að neðsti kaflinn sé mjög grýttur og það sé mikið af stórgrýti á veginum.  Taka undir fyrri umræðu um að minnka hámarkshraða á svæðinu.

  • Kosning stjórnar

Sama stjórn gefur kost á sér áfram, Hákon Jónas gefur ekki kost á sér, Sigurjón Ragnar gefur kost á sér í hans stað.

Engin mótframboð og stjórn því samþykkt.

  • Kosning skoðunarmanna

Steini Þorvaldsson og Sigrún Erlendsdóttir gefa kost á sér áfram

  • Önnur mál.

Ólafur E 31–hefur máls á umferð á göngustíg sem liggur í gegnum land er tilheyrir E 35. Bústaður var seldur á dögunum. Hann telur að fyrri eigandi hafi ekki haft rétt til að loka göngustígnum. Ólafur les úr lögum um náttúruvernd máli sínu til stuðnings. Ólafur vill að næsti eigandi fái þau skilaboð að ekki sé heimilt að loka göngustígnum og hindra för gangandi vegfarenda.

Ásgeir formaður hefur talað við sveitarfélagið vegna þessa og göngustígurinn er ekki á neinni teikningu. Samkvæmt eldra skipulag í kringum 1990, þá er teiknaður göngustígur á milli lóða 34&35. Síðan þá hefur orðið breyting á hnitum lóða á öllu svæðinu. Formaður myndi ekki sætta sig við að fólk væri að ganga í gegnum sitt land og telur að fyrri eiganda hafi verið í lófa lagt að banna og loka göngustígnum. Staðsetning á milli lóða er mýri og mjög bratt og erfitt að viðhalda göngustíg. Lóðin er í umsjá landeiganda. Landeigandi vill ekkert aðhafast. Fyrri eigandi vildi ekki sættast á tillögur stjórnar. Ákveðið er að sjá til með viðbrögð nýs eiganda.

Stjórn og framkvæmdastjórn er þakkað fyrir vel unnin störf!

Fundi slitið

Fylgirit samantekt fundargerða framkvæmdanefdar 2022

Fundargerðir framkvæmdanefndar samantekt apríl 2022 til apríl  2023

Nefndin hefur haldið 5 fundi þar sem farið var yfir eftirfarandi atriði:

  1. Vatnsmálin hafa tekið mesta tímann aðallega frá áramótum og fram til dagsins í dag en eins og allir hafa orðið varir við hefur frostið bitið og veturinn verið harður. Sá viðsnúningur hefur þó orðið að tankarnir halda og ekki hefur verið teljandi vatnsskortur nema á einni stofnæð Eyrarskógsmegin þ.e frá no 80 og niður eftir. Að tillögu Pálma í E16 voru keyptir vatnshæðarskynjarar sem settir voru upp í vatnstankana bæði Hrísabrekku og Eyrarskógsmegin. Guðjón Ingvi og Hrafn Leó sonur hans hafa haft veg og vanda af allri þessari framkvæmd en talsvert flókið var að koma búnaðnum fyrir og stilla hann inn. Í dag er hægt að fylgjast með vatnsstöðunni í Eyrarskógstanknum í gegnum netið en eftir er að tengja búnaðinn Hrísabrekkumegin en til þess þarf að setja upp búnað til að komast í samband við netið. Þegar Því er lokið verða báðir mælar stilltir og verður hægt að skoða vatnshæðina í tönkunum okkar á netinu á heimasíðu félagsins. Nefndin telur sig vera búna að kortleggja hvar vandinn í stofnæðinni liggur og verður farið í að lagfæra og dýpka lagnirnar fyrir næsta vetur. Búið er að merkja inn á kort hvar stofnæðirnar liggja en greinilegt er að margir bústaðir eru með illa frágengnar lagnir og eru því vatnslausir þess vegna.
  2. Vegir og vegamál hafa verið í góðu lagi, borið var í vegi og heflað einu sinni á árinu auk þess sem saltað var reglulega bæði til að binda ryk og til að þétta toppefnið. Þetta gaf góða raun og hefur ástand vega á svæðinu verið óvenju gott. Ekki vannst tími til að lagfæra þau ræsi sem stefnt var á að skifta um en farið verður í þá vinnu við fyrsta tækifæri. Snjór var mokaður 1 sinni í vetur.
  3. Umhverfismálin hafa átt sinn stað, bekkir hafa verið endurnýjaðir og málaðir, stígar hafa verið lagfærðir, lundurinn hresstur upp og margt fleira. Hugmyndir eru um að gera lundinn aðgengilegri fyrir alla, lagfæra aðkomuna Eyrarskógsmegin, bera í göngustíga, fjölga bekkjum á gönguleiðum og gera umhverfið okkar meira aðlaðandi. Nefndin vill nota þennan vettvang sem er aðalfundurinn okkar og vekja athygli félagsmanna og skógarbúa allra að sú vinna sem unnin er í þágu félagsins er ekki sjálfgefin og hafa einstaklingar eins og Guðjón Ingvi og Anna, Arnar, Gísli, Lúlli, Rúnar ásamt fjölmörgum öðrum lagt til vélar og heilmikla vinnu til að viðhalda og gera umhverfið okkar betra endurgjaldslaust. Ráðist var í lúpínuslátt með aðstoð Arnars í E 6 í haust og  gaf það góða raun, þörf er á frekari grisjun á lúpínunni og kjarri meðfram vegum. Mælir nefndin með frekari vinnu til að hefta þetta þar sem lagnir liggja víða meðfram veginum auk þess sem oft er erfitt að mætast á vegna gróðurs, þessar framkvæmdir hafa orðið tilefni til harðrar orðræðu á netinu og vill nefndin árétta að Þessar aðgerðir eru nauðsynlegar til að hægt sé að fara um skóginn, lóðarmörk eru hvergi nær vegi en 3 metrar og mun nefndin halda áfram þeirri vinnu að grisja meðfram öllum stofnvegum allt að 3 metrum. Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Eins er vert að vekja athygli skógarbúa á vinnudeginum okkar en hann hefur verið notaður m.a. til að grisja og taka til í nágrenninu okkar.

  • Girðingar hafa haldið hjá okkur og hefur Guðjón séð um að viðhalda þeim og halda sauðfé og hestum frá sumarhúsabyggðinni. Fjárfest var í tveimur rafstöðvum og sólarsellum til að halda rafmagni á girðingum og m.a. til að leysa af hólmi stöð sem hefur verið tengd hjá Önnu Karen í H30 en gamla stöðin var tengd inni í H30 með tilheyrandi tikki og hávaða. Nefndin þakkar Önnu og fjölskyldu umburðarlyndið í gegnum árin.
  • Fjárfest var í trjákurlara sem ekki stóð undir nafni og fengum við nýjan á haustmánuðum sem verur tekinn í gagnið í vor. Talsverðir barnasjúkdómar voru á garminum og varð samkomulag um að við fenjgum nýjan í staðinn. Saltdreifari var líka keyptur og hefur hann verið notaður óspart til að binda ryk og þétta slitlag. Nefndin leitaði til stjórnar með kaup á gám undir tæki, lagnaefni og annað sem tilheyrir rekstri 150 bústaða byggð og var ákveðið að kaupa 20 feta gám sem geymir þessa hluti í dag. Þessar fjárfesingar munu endast félaginu nokkur ár.
  • Hliðin hafa verið að mestu leyti í lagi eftir lagfæringar en þó er komið að endurnýjun á hliðinu Eyrarskógsmegin, en búnaðurinn er orðinn úreltur og slitinn. Nefndin hefur kynnt sér kostnað við endurnýjun og uppfærslur og liggur hann fyrir en auk þess er orðið aðkallandi að taka til í símanúmeraskrá gamla kerfisins og myndi slíkt gerast í kjölfarið á því.
  • Aðalfundurinn er vettvangur skoðanaskifta og tillagna, notum hann og vinnum saman að betra samfélagi. Skógarbúar eru hvattir til að taka virkan þátt í að gera svæðið okkar betra, klippa greinar meðfram vegum og huga að heimæðum og lögnum að bústöðum. Framkvæmdanefndin vill að endingu þakka stjórn og félagsmönnum traust og trú, við vinnum að heilindum og eftir bestu getu fyrir okkur öll. Arnar, Andrés, Guðjón, Hrafn Leó, Gísli, Anna Karen, Lúlli, Anna, Gestur, Jenni, Rúnar og allir hinir sem hafa lagt hönd á plóg. Áfram gakk takk fyrir frábært starf.
Birt í Óflokkað | Slökkt á athugasemdum við Fundargerð aðalfundar 2023

Aðalfundur félagsins 26 apr.

Kæru skógarbúar

Þá er komið að því að halda aðalfundinn.

Aðalfundur Frístundafélagsins Eyrarskógur og Hrísabrekka,

verður haldinn miðvikudaginn 26 apríl 2023 kl 20.00 í Safnaðarheimili

Kársnessafnaðar, Borgir að Hábraut 1a (fyrir neðan Kópavogskirkju).

Dagskrá:

1. Fundur settur

2. Kosning fundarstjóra og fundarritara

3. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins

4. Reikningar félagsins lagðir fram

5. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins

6. Ákvörðun árgjalds

7. Rekstrar og framkvæmdaráætlun

8. Kosning stjórnar

9. Kosning skoðunarmanna

10. Önnur mál​

Félagsmenn eru hvattir til að mæta

Stjórnin

Birt í Óflokkað | Slökkt á athugasemdum við Aðalfundur félagsins 26 apr.

Vatnsskortur í frostatíð

Ágætu skógarbúar það er víða kvartað yfir vatnsleysi beggja vegna Grjótár en að þessu sinni er nóg vatn í tönkunum beggja vegna árinnar. sökudólgurinn getur verið lagnir sem liggja of grunnt og geta það bæði verið gamlar stofnlagnir og heimæðar. Búið er að reyna að finna frosttappa á nokkrum stöðum en það er eins og að leita að nál í heystakki við þær aðstæður sem eru í dag. Áfram er spáð frosti og er ekki útlit fyrir að ástandið lagist fyrr er í næstu hýindum. Félagið fjárfesti í búnaði til að fylgjast með vatnshæð í tönkunum en illa hefur gengið að koma honum í samband en við núverandi aðstæður hefði hann reynst dýrmætur. Eina örugga ráðið til að tryggja sig er að hafa brúsa með að heiman og bjarga sér uns frostið hopar. Kveðja frá framkvæmdanefnd.

Birt í Óflokkað | Slökkt á athugasemdum við Vatnsskortur í frostatíð

Frá Framkvæmdanefnd

Nefndin hefur það hlutverk að skipuleggja vinnu sem framkvæmd er á sumarbústaðasvæði Eyrarskógs og Hrísabrekku og vinnur í fullu samráði við stjórn félagsins og eftir þeim reglum sem þar gilda. Á aðalfundi félagsins  var kynnt framkvæmdaáætlun sem lögð var fyrir fundinn og var hún samþykkt þar.

Í  vor og í sumar hefur verið unnið samkvæmt þessari áætlun og hefur m.a. verið grisjað talsvert meðfram vegum, enda gróður sprottið óvenju mikið og er víða farinn að þrengja að vegum og jafnvel valda tjóni á ökutækjum. Það er gildandi regla varðandi lóðarmörk að ekki er leyfilegt að planta í 3ja metra fjarlægð  frá vegöxlum á svæðinu en það svæði er hugsað m.a. fyrir lagnir, snjóruðning og annað sem auðveldar umferð um svæðin.

Það er á ábyrgð lóðarhafa að gæta að því að grisja gróður sem teygir sig út yfir lóðarmörk og hvetur nefndin lóðarhafa að kanna ástand lóðarmarka hjá sér og klippa þar sem þörf er á.

Framkvæmdanefnd mun halda áfram sínu starfi og vinna að áframhaldandi vegabótum með tilheyrandi grisjun, enda starfar hún eftir ofantalinni 3ja metra reglu. Lagfæringar á vegum, girðingum, vatnslögnum og margt annað hefur verið unnið í gegnum árin í sjálfboðavinnu af nokkrum einstaklingum á svæðinu og er sent oflofað fyrir það framtak.

Með kærri kveðju frá Framkvæmdanefnd

Birt í Óflokkað | Slökkt á athugasemdum við Frá Framkvæmdanefnd

Upplýsingar vegna innheimtu árgjalda

Góðan dag það hefur komið í ljós að vitlaust símanúmer er á greiðsluseðlinum vegna árgjalds félagsins. Þeir sem þurfa upplýsingar eða koma skilaboðum vegna gjaldsins geta sent tölvupóst á dollabina@gmail.com eða hafa samband í síma 6903769 við Sólveigu

Kveðja Stjórnin

Birt í Óflokkað | Slökkt á athugasemdum við Upplýsingar vegna innheimtu árgjalda

Verslunarmannahelgin 2022

HÆ Hó og jibbíjeyj….. nei ekki kominn 17.júní – heldur styttist heldur betur í laugardagshitting í Lundinum fagra í Skóginum okkar um verslunarmannahelgi, ÁN allra takmarkanna.

Þar sem mörg okkar hafa ekki upplifað verslunarmannahelgi í Skóginum, þá treystum við á okkar sambýlinga að leiða okkur á rétta braut. Þar njótum við m.a. dyggrar handleiðslu tæknistjórans Andrés Helgi Hallgrímsson í árlegu Eyrarvatnshlaupi og Útivistarnefndarmeðlimanna, Lúðvíks Lúðvíkssonar sem leiðir þá sem vilja á Kambinn og Önnu Brynhildi Bragadóttur sem leiðir okkur í notalega göngu um skóginn. Þessar göngur og hlaup hefjast frá Lundinum kl. 13.00 á laugardeginum. Engin skráning, bara að mæta tímalega og klæðnaður eftir veðri.

Kvöldvaka verður svo í Lundinum kl. 20.00 á laugardagskvöldinu. Fyrir börnin – fjársjóðsleit – verðlaun fyrir alla. Brekkusöngur – þar vantar okkur hljóðfæraleikara, söngbókin fylgir hér með. Verðum einnig með hátalara á svæðinu og playlista fyrir söngbókina, en lifandi undirspil og söngur er alltaf skemmtilegra. Varðeldur kveiktur – sykurpúðar á staðnum fyrir þá sem það vilja. Munið bara að maður er manns gaman og að klæða sig eftir veðri.

Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.Stjórnin.

Birt í Óflokkað | Slökkt á athugasemdum við Verslunarmannahelgin 2022

Fundargerð aðalfundar 2021

Aðalfundur Eyrarskógar og Hrísabrekku, 4. maí 2022
Formaður Ásgeir Ásgeirsson H12 stígur í pontu og setur fundinn kl 20:00, leggur til að Andrés Helgi Hallgrímsson H15 taki við fundarstjórn sem hann og gerir. Andrés tekur fram að hann hafi kannað lögmæti fundar, leggur síðan til að Sverrir Davíð Hauksson E11 taki að sér ritarastarf, því næst setur hann fyrsta mál á dagskrá sem er skýrsla stjórnar.
Fundarritari: Sverrir Davíð Hauksson

Ásgeir formaður tók til máls undir liðnum skýrsla stjórnar, byrjaði hann á því að þakka því fólki sem var að yfirgefa stjórn fyrir sín störf, einnig þakkaði hann samstarfsfólki í stjórn og nefndum fyrir sín góðu störf.
Skýrsla stjórnar
Á síðasta aðalfundi urðu þær breytingar að þau Kristrún Kristinsdóttir formaður og Guðmunda Ingimundardóttir gjaldkeri gengu úr stjórn Félagsins. Í staðin komu inn Ásgeir Ásgeirsson sem formaður Hrísabrekku 12 og Sólveig Birgisdóttir Hrísabrekku 8 sem gjaldkeri. Þau sem héldu áfram eru Júlíus BJ.Benediktsson Eyrarskóg 61 sem ritari og varamenn Olga Kristjánsdóttir Eyrarskóg 84 og Ingi Gunnar Jóhannsson Eyrarskóg 83.
Við höfum lagt mest af okkar vinnu í að skipuleggja okkur hvað við viljum gera og hvernig. Formlegir fundir frá því að við tókum við eru orðnir 6 ásamt óformlegum samskiptum varðandi hin ýmsu málefni.
Stjórn ákvað að sameina vatnsnefnd ,veganefnd og tækninefnd í eina nefnd sem við köllum nú framkvæmdanefnd.
Í henni sitja : Finnbogi Kristinsson Hrísabrekku 8, Guðjón Ingvi Jónsson Eyrarskógi 14, Gísli Haraldsson Eyrarskógi 33, Andrés Helgi Hallgrímsson Hrísabrekku 15, Pálmi Hamilton Lord Eyrarskógi 16.

Vatnsveitumál
Það horfir til betri vegar eftir að menn fundu út hver ástæðan væri fyrir endalausum vatnskorti í Hrísabrekku sem hefur plagað okkur undanfarin ár. Við þurfum að halda áfram með fyrirbyggjandi vinnu og hvetja þá áfram sem eiga eftir að endurnýja inntakskrana og lagnir sem liggja grunnt við yfirborðið. Þá höfum við ákveðið að leggja í þá vinnu að GPS mæla hvar vatnslagnir liggja og staðsetja alla krana í skóginum. Við höfum einnig ákveðið að setja mæla á tankana og rennslismæla á lagnirnar svo hægt verð að fylgjast með okkar vatnsbúskap.
Vegir
Við höfum ákveðið að fara nýjar leiðir varðandi uppbyggingu á vegum og mun ég láta framkvæmdanefndina fara betur yfir þeirra áætlanir hér á eftir.
Ruslagámar
Stjórn hefur rætt mikið um þá ruslagáma sem fengnir eru yfir sumarið undir timbur,járn og garðúrgang sé tímaskekkja. Þetta er mikill kostnaður og spurning hvort við sem eigum ruslið sjái um að farga því sjálft.

Reikningar og efnahagur

Sólveig Birgisdóttir gjaldkeri fór yfir reikninga félagsins, þar kom fram að efnahagur félgasins er í góðum málum eignir á reikningum er tæpar 3,3 milljónir, félagið var þó rekið með tæpum 600 þús kr tapi á síðasta ári. Það sem skýrir helst þetta tap er þessi mikla vinna sem átt hefur sé stað við að laga vatnsveituna okkar.
Skýrsla stjórnar og reikningar voru samþykktir án umræðu.

Þá lagði gjaldkeri fram fjárhagsáætlun fyrir árið 2022.

Fjárhagasáætlun 2022
Tekjur
Árgjöld ( m.v. 28.000,- ) 3.388.000
Vextir 10.000
Fengin seðilgjöld og drv 50.000
  3.398.000
 
Gjöld
Þjónustugj.og innh.þj. Banka 50.000
Fjármagnstekjuskattur 5.000
Vatnsveita 1.100.000
Vegavinna 600.000
Viðhald girðinga 120.000
Öryggshlið og myndavélakerfi við hliðin 500.000
Gámakostnaður 100.000
Vinnudagur og Verslunarmannahelgi 160.000
Snjómokstur 150.000
Göngustígar, göngubrú og útivistarsvæði 300.000
Fjölnet-heimasíða 35.000
Aðalfundur og 0nnur umsýsla 200.000
Tækjakaup 600.000
Annað ófyrirséð 200.000
  4.065.000

 
staða 31/12/21 2.983.333
tekjur áætlun 3.398.000
gjöld áætlun – 4.065.000
eftirst 31/12/22 2.316.333

Tillaga um árgjald fyrir næsta ár kom frá stjórn upp á 28 þús kr, stjórnarfólk taldi að nú mætti hækka gjaldi þar sem það hafði ekki verið hækkað í fjölda mörg ár. Tillaga úr sal kom fram að hækka gjaldið í 32 þús kr, þar sem fjáhagsætlun gerir ráð fyrir töluverðum framkvæmdum og öðrum umsvifum og er því ráðlegt að hafa borð fyrir báru, tillaga úr sal var samþykkt eftir atkvæðagreiðslu.

Finnbogi Kristinsson kynnti því næst framkvæmdaáætlunina fyrir árið 2022.
Tillögur að framkvæmdaáætlun 2022 fyrir aðalfund 04/05 2022
Vegamál:
⦁ Endurnýja ræsi sem eru of lítil eða orðin léleg
⦁ Slétta vegi og mala efni sem er til staðar með bundið slitlag í huga
⦁ Grisja trjágróður við vegaxlir allt að 3 metrum í samráði við húseigendur
⦁ Árétta hámarkshraða svæðinu
⦁ Rykbinda aðalvegi með salti
⦁ Fjölga vegstikum á stofnvegum Eyrarskógs og Hrísabrekku megin
Vatnsmál:
⦁ Setja á vatnshæðarmæla i tanka fyrir bæði Eyrarskóg og Hrísabrekku
⦁ Setja upp 3 þrýstiminnkara á lögn Eyrarskógsmegin
⦁ Setja rennslismæla á helstu stofna til að fylgjast með notkun og lekum á lögn
⦁ Hvetja húseigendur til að endurnýja eldri inntakskrana
⦁ Tyrfa yfir vatslögn í gilinu ofan Eyrarskógs megin ca 70 – 80 metra kafli
⦁ Sá yfir tankasvæði Hrísabrekkumegin með grasfræi og áburði.
⦁ Setja læsingar á mannop á vatnstanka Hrísabrekku megin.
Hlið og girðingar:
⦁ Lagfæra og yfirfara hliðbúnað og skifta um slá Eyrarskógsmegin
⦁ Kaupa og setja upp rafmagnsbúnað á girðingu Eyrarskógsmegin

Fjárfestinga tillögur:
⦁ Saltdreifari kostnaður +- 50,000
⦁ Trjákurlari kostnaður +- 500,000
⦁ Kostnaður vegna hliðs +- 50,000
⦁ Kostnaður vegna girðingar +- 100,000
⦁ Þrystijafnarar efniskostnaður +- 150,000
⦁ Mælar í tanka og rennslismælar +- 200.000
⦁ Kaupa ca 50 fermetra af þökum vegna yfirlagnar á vatnslögn 50.000+-
⦁ Kaupa áburð og fræ vegna sáningar við tank Hrísabrekku megin15.000+-
⦁ Keðjur og annar búnaður vegna lokunar á mannopi 20.000+-
⦁ Ræsi og vinna við endurnýjun á þeim +- 500,000
Samanlagður kostnaður er um 1800,000 krónur og er eftir að reikna vinnuþætti þar sem það á við.
Tillaga nefndarinnar er að undirbúa vegi undir bundið slitlag á helstu stofnæðar á næstu 2 árum.
Ekki varð mikil umræða um framkvæmdaáætlunina, enda metnaðarfull og vel sett fram.

Kosning í stjórn
Ásgeir Ásgeirsson var kosinn formaður, Sólveig Birgisdóttir, Hákon Jónas Hákonarson í stjórn og varamenn Olga Kristjánsdóttir, Ingi Gunnar Jóhannsson.
Skoðunarmenn reikninga
Steini Þorvaldsson og Sigrún Erlendsdóttir

Framkvæmdanefnd.
Finnbogi Kristinsson, Guðjón Ingvi Jónsson, Gísli Haraldsson, Andrés Helgi Hallgrímsson, Pálmi Hamilton Lord,

Önnur mál
Spurt var úr sal hvort ekki mætti bæta girðinguna þar sem nægir peningar væru í sjóði. Guðjón Ingi fór yfir stöðuna á girðingunni, (hann þekkir þetta manna best þar sem hann og Anna hafa farið yfir og lagað eins og hægt er girðinguna á hverju vori) hún liggur sem sagt niðri á löngum köflum, brotnir staurar og vírar sem liggja við jörðu og er því ekki hægt að setja straum á alla strengi, þá kom einnig fram að gamla vírgirðingin sem liggur í austaverðu landinu er að mestu ónýt.
Þá kom fram hjá Finnboga að félagið hefið aðgang að geymslu til þess að geyma þau tæki og tól sem félagið er að festa kaup á.
Lúpína er ekki allra í skóginum, ekki kom fram vilji stjórnar hvað þau vilja gera í þeim málum. Guðjón nefndi að lúpína og annar gróður er ekki góður í jaðri vega, kantar byggjast upp og vegir losa síður það vatn sem safnast upp þegar rignir.
Þá kom það skýrt fram að tré eiga að vera 3m frá jaðri vega, enginn hefur lóð nær vegi en 3m. (Innskot frá fundarritara, það sem hefur eflaust valdið misskilingi er að landamerki lóða var ekki vel skilgreint í upphafi, en nú eiga allar lóðir að vera hnitaðar).
Eldvarnir voru einnig ræddar og koma þar fram að ekki hafi verið neitt unnið í flóttaleiðum.

Ekki kom fleira fram á fundinum, fundarstjóri sleit því fundi kl 21:40

Birt í Óflokkað | Slökkt á athugasemdum við Fundargerð aðalfundar 2021

Vinnudagur 11 júní fyrirkomulag

Sæl verið þið góðu skógarbúar.
Nú er vinnudagurinn okkar í skóginum 11 júní eða næsta laugardag.
Söfnumst saman við gámana Eyrarskógsmegin, kl: 10:00 og þar skiptum við okkur upp í þau verkefni sem við höfum hug á að taka þátt í.
Grillum pylsur fyrir alla kl. 13:00 á planinu við gámana og reynum að gera eitthvað skemmtilegt. Svo höldum við áfram til kl. 16:00 förum og þrífum okkur og hittumst kl. 17:00 í Hrísabrekku 8, þar sem fólk kemur með veitingar hver eftir sínu höfði eins og verið hefur undanfarin ár.
Gott að hver og einn komi með þau verkfæri sem þið eigið í eftirfarandi verkefni, sem nefndin hefur lagt til að farið verði í.
Ekkert plan er fyrir börn, en okkur vantar hugmyndir fyrir þau og einhverja til að sjá um þann þátt.
Allar tillögur vel þegnar og athugasemdir.

Verkefni staður mannsk. tæki Umsjón
Skifta út plöntum Útivistanefnd veit
Grisjun meðfram vegum Eyrarskógur 10 sagir og klippur Gísli
Grisjun meðfram vegum Hrísabrekka 4 sagir og klippur Sólveg
Viðhald á girðingu Eyrarskógur 4 hamrar tangir o.fl Guðjón
Sláttur á lúpinu Eftir þörfum 4 Sláttuorf Stjórn
Reyta gras frá trjám Við hlið E & H 4 Hendur klippur
Kurlun á trjágróðri Plan Eyrarskógi 3 klippur & sagir Finnbogi
Málning og fúavörn Sameiginleg svæði 2 Pensla og fötu málning
Veitingamóttaka Hrísabrekka 8 Finnb & S

Birt í Óflokkað | Slökkt á athugasemdum við Vinnudagur 11 júní fyrirkomulag

Tilkynning frá stjórn

Kæru skógarbúar við viljum minna á að samkvæmt samþykkt aðalfundar verða ekki gámar undir timbur, járn og garðúrgang á svæðinu eins og verið hefur undanfari ár heldur verður hver og einn að koma sínu rusli á næstu grenndarstöð. Gámar sem eru fyrir eru eingöngu fyrir heimilissorp. Trjákurlarinn kemur í sveitina í þessari viku og verður auglýst þegar hann verður klár til notkunar fyrir skógarbúa. Vinnudagur verður þann 11 júní og dagskrá verður auglýst síðar.

Kv Stjórninn

Birt í Óflokkað | Slökkt á athugasemdum við Tilkynning frá stjórn