Fundur í Frístundahúsafélagi Eyrarskógar og Hrísabrekku haldinn í Smáranum, Íþróttahúsi Breiðabliks, Dalsmára 5, Kópavogi, þriðjudaginn 21. ágúst kl. 20:00.
DAGSKRÁ:
- Öryggishlið, staðan og næstu skref.
- Önnur mál.
Formaður setti fund og lagði til að Kristján Ragnarsson (E-45E) yrði skipaður fundarstjóri. Þá lagði hann til að Ólafur S. Ástþórsson (E-89) tæki að sér að vera fundarritari. Hvoru tveggja var samþykkt og tók Kristján við fundarstjórn.
Fundarstjóri lét kanna mætingu á fundinn til þess að tryggt yrði að ákvarðanir hans myndu teljast löglegar. Talning fundarmanna leiddi í ljós að fulltrúar frá 41 af 108 byggðum lóðum voru mættir á fundinn. Fundarstjóri tilkynnti í framhaldinu að fulltrúar væru nægilega margir til ákvarðanatöku á fundinum. Þá ákvörðun að byggja mat sitt um lögmæti fundar til ákvörðunartöku á þeim hluta félagsmanna sem þegar hafa reist hús á sínum lóðum rökstuddi hann með því að þeir aðilar einungis hefðu hagsmuni að verja í sambandi við uppsetningu hliða. Ekki væri rétt að þeir sem ekki hefðu byggt hús og/eða hyggðust jafnvel alls ekki gera það gætu ráðið því hvort hinir þ.e. þeir sem hafa byggt hús gætu varið eignir sínar með aðgerðum eins og hér væru til umræðu. Þá úrskurðaði fundarstjóri að fundarboð og tillaga stjórnar um fyrirhugaðar framkvæmdir við öryggishlið væru í samræmi við lög félagsins.
Hér að neðan er greinargerð og tillaga stjórnar varðandi umræðu um hlið birt til upplýsingar:
Ágætu félagsmenn.
Í sambandi við fyrirhugaðan fund um öryggishlið að frístundahúsasvæðinu hefur stjórnin aflað frekari upplýsinga um kostnað, m.a. með tilboðum frá söluaðilum hliða og viðræðum við félagsmenn innan okkar raða (rafvirkjameistara, verktaka).
Kostnaðaráætlunin sundurliðast sem hér segir.
1. Lægsta tilboð í hlið að Eyrarskógi frá Öryggismiðstöð Íslands: 880.000 kr.
2. Rafmagnsinntak: 366.000 kr. Hér er um að ræða lágmarksgjald sem getur
hækkað ef það er lengra en 200 m í næsta tengiskáp.
3. Inntakskassi fyrir rafmagn: 70.000-100.000 kr.
4. Jarðvinna og stöplar undir hlið: 100.000-150.000 kr.
5. Óvissa: 250.000 kr. m.a. til að mæta hugsanlegum aukakostnaði við
rafmagnsinntak.
Samtals er kostnaður við hlið að Eyrarskógi því áætlaður á bilinu um
1.700.000-1.800.000 kr.
Ef jafnframt verður ráðist í samskonar hlið að Hrísabrekku er kostnaður þar áætlaður eftirfarandi.
1. Tilboð í hlið að Hrísabrekku frá Öryggismiðstöð Íslands: 868.000 kr. Hlið númer tvö er aðeins ódýrara en hið fyrsta vegna þess að akstur tengdur uppsetningu samnýtist.
2. Jarðvinna, stöplar og rafmagnsstrengur lagður frá inntakskassa að hliði:
200.000 kr.
Þannig er áætlaður kostnaður fyrir kaup og uppsetningu á tveimur hliðum um 2.800.000-2.900.000 kr.
Stjórnin mun leggja til að ráðist verði í framkvæmdir við bæði hliðin áður en haustar og að þær verði fjármagnaðar með sérstöku 20.000 kr. gjaldi á hverja byggða lóð. Ef samþykkt verður að ráðast í þessar framkvæmdir er greiðsla á umræddu gjaldi forsenda þess að unnt sé að skrá viðkomandi með leyfi til umgengni um hliðið. Byggðar lóðir eru nú um 105 sem þýðir heildarupphæðin sem innheimtist ætti að verða um 2.100.000 kr. Það sem uppá vantar verður greitt úr sjóði félagsins.
Kv., stjórnin
Formaður fékk síðan orðið til þess að hafa forsögu um tillögu stjórnar varðandi framkvæmdir við öryggishlið. Í upphafi rifjaði hann lítillega sögu umræðu um öryggishlið innan félagsins og gat þess meðal annars að tillaga um hlið inn á frístundahúsasvæðið hefði verið felld á fundi fyrir einum 6 árum. Þá nefndi hann að nú horfði hins vegar allt öðru vísi við varðandi öryggi og verndun eigna á svæðinu gagnvart innbrotum og skemmdarverkum. Formaður sagði að í vetur hefði verið brotist inn í tvö hús og síðan þrjú í vor. Seinustu innbrotin áttu sér staði í júlí þegar margir bústaðaeigendur voru á svæðinu og sýnir það bíræfni þeirra sem eiga í hlut.
Formaður gat einnig um niðurstöður könnunar sem stjórnin hafði staðið fyrir til þess að kanna hug félagsmanna til hliðs. Þátttaka í könnuninni var fremur dræm en niðurstöður voru afgerandi. Af þeim 25 sem svöruðu voru 23 meðfylgjandi uppsetningu hliðs en aðeins 2 á móti.
Þessu næst greindi formaður frá því að stjórnin hefði leitað eftir upplýsingum um kostnað við uppsetningu á hliðum bæði fyrir Eyrarskóg og Hrísabrekku eins og kynnt var til félagsmanna með tölvupósti og bréfi (til þeirra sem ekki hafa netföng) fyrir fundinn (sjá hér að ofan). Framkvæmdin er ekki að fullu útfærð en kostnaðaráætlun stjórnar gerir ráð fyrir 20 þúsund kr. gjaldi á hverja byggða lóð. Þar er innifalin ákveðin óvissa sem aftur ætti að tryggja að áætlun standist og að ekki þurfi að senda út bakreikninga. Við undirbúningsvinnuna hefur hins vegar greinilega komið í ljós að „hlið er ekki bara hlið“ og þar er að mörgu að hyggja. Nefndi formaður m.a. í því sambandi að tryggja þyrfti aðgengi sjúkra- og slökkviliðs, girða þyrfti og/eða gera hindranir til hliðar við hliðstólpa o. s. frv.
Að lokinni þessari kynningu var opnað fyrir umræðu meðal félagsmanna.
Guðbjarni (sem mættur var sem fulltrúi Guðmundar, E-2) spurði hvort að sú hugmynd stjórnar um að setja upp hlið þar sem innheimta gjalds ætti aðeins að miðast við byggðar lóðir stæðist lög félagsins. Formaður sagði að hér væri viðhaft sama fyrirkomulag á og tíðkaðist t.d við innheimtu vatnsgjalds. Það er aðeins innheimt af byggðum lóðum en síðan greiða óbyggðar lóðir sérstakt tengigjald þegar þær tengjast vatnsveitunni. Tillaga stjórnar er að sama fyrirkomulag verði haft varðandi öryggishlið. Einungis þeir sem eru með byggðar lóðir greiða nú en þeir sem ekki hafa byggt geta fengið aðgang um hlið gegn greiðslu gjaldsins þegar þeir hefja framkvæmdir (og auðvitað fyrr ef þeir vilja svo við hafa).
Ingi Gunnar (E-83) mótmælti ákvörðun fundarstjóra um að fundurinn væri löglegur þar sem við það mat á því ætti að miða við allar lóðir á svæðinu en ekki aðeins þær lóðir sem búið er að byggja á hús.
Fundarstjóri nefndi að með fyrirhuguðum framkvæmdum væru þeir sem ættu bústaði að vernda eigur sínar og því væri mjög eðlilegt að miða ákvörðun um lögmæti fundar og innheimtu gjalds við byggðar lóðir. Þeir sem ekki hafa byggt á sínum lóðum hafa engra hagsmuna að gæta og ekki væri sanngjarnt að þeir gætu ráðið úrslitum um það hvort við hin verðum eigur okkar og verðmæti. Á þessum grunni hefur líka félagið ráðið ráðum sínum frá stofnun þess.
Ólafur (E2,-1) greindi frá fundi sem hann hefði sótt um innbrotamál í sveitinni.
Guðbjarni (E-2) spurði um ruslagáma og hvort báðir aðilar (Eyrarskógarfólk, Hrísabrekkufólk) þyrftu að fara um bæði svæðin, sem og hvort menn þyrftu að tala við vöktunarfyrirtæki (þ.e. söluaðila hliða) þegar farið væri inn og út.
Formaður greindi frá því að menn gætu haft lykil með rafeindaflögu/fjarstýrðan opnara í bíl sínum og þá opnaðist hlið þegar komið væri að því. Einnig greindi hann frá því að hlið yrði hægt að opna með símhringingu og að hver bústaður fengi líklegast úthlutað 4-5 símanúmerum (eitt símanúmer tilheyrir ákveðnum síma) sem unnt væri að hringja úr til þess að opna hlið. Hliðið þekkir þannig símann sem hringt er úr hvort sem sá sem hringir er staddur með símann við hliðið eða í útlöndum. Vissulega mun uppsetning á hliðum kalla á breyttar venjur hvað varðar aðkomu (menn þurfa þannig að að slá af ferðinni, hringja og bíða eftir að hlið opnist) en að sama skapi er vonast til þess að þetta leiði til aukins öryggis á svæðinu. Fólk verður að hafa í huga hversvegna ráðist er í þessa framkvæmd.
Varðandi gámana sagði formaður að hann hefði fyrr í sumar átt samtal við Jón á Eyri um staðsetningu gámanna í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir. Þá nefndi Jón möguleikann á því að flytja gámana niður fyrir veg (þangað sem brennustæðið hefur verið). Formaður sagðist hafa tekið vel í þá hugmynd og talið hana mjög góða lausn. Síðan gerðist það fyrir nokkrum dögum að Gísli hitti Jón í umboði formanns og þá kom fram að Jón hafði skipt um skoðun þar sem hann taldi að á nýjum stað myndu gámarnir þrengja að honum. Í tengslum við uppsetningu hliða taldi Jón staðsetningu gámanna ekki stórmál og er það að sönnu rétt hjá honum. Gámarnir verða þannig áfram á svipuðum stað og verið hefur en utan hliðs. Verið getur hins vegar að í tengslum við framkvæmdirnar þurfi aðeins að hnika þeim til miðað við það sem nú er.
Guðbjarni (E-2) spurði um kostnað við rekstur hliða, þ.e. hvort greiða þyrfti ákveðin þjónustugjöld af þeim. Formaður svaraði til að þjónustukostnaður hliðs væri talinn um 4800 kr á mánuði og að síðan kæmi til eftirlit eða skoðun einu sinni á ári sem ekki væri kostnaðarsöm. Að lokinni uppsetningu hliða verður þessi kostnaður hluti af rekstrarreikningi frístundahúsafélagsins.
Spurt var (Hafsteinn, E-38) hvort hlið eins og þau sem fyrirhugað er að setja upp væru örugg t.d. í kuldum á veturna. Formaður sagði söluaðila segja að frost og kuldi ætti ekki að skapa vandamál en auðvitað geta þessi hlið bilað eins og önnur mannanna verk. Niðri við þjóðveg getur stundum verið mjög vindasamt og því þarf að setja hliðin upp á þann hátt sem við teljum best með tilliti til allra aðstæðna.
Spurt var (fundarritari náði ekki nafni fyrirspyrjanda) hvort stjórnin vissi eitthvað um það hvort umferð hefði breyst á svæðum þar sem sambærileg hlið hefðu verið sett upp. Í svari við þeirri spurningu vísaði formaður í orð kunningja síns sem er bústaðareigandi í Svarfhólslandi en þar voru sett upp hlið fyrr í sumar. Sá hafði sagt að verulega hefði dregið úr umferð utanaðkomandi.
Hólmgeir (E-20) nefndi að með uppsetningu á hliði fengi hann þá tilfinningu að verið væri skipta landinu þannig að almannaréttur til umferðar væri ekki lengur virtur og því spyrði hann hvort í raun mætti loka landi eins og Eyrarskógi fyrir almennri umferð.
Ólafur (E-2, 1) nefndi að það væri neyðarréttur okkar að verja okkur með þeim hætti sem ætlunin er. Þá benti hann á að bændur mættu verja slóða sem þeir hefðu í upphafi lagt. Vegir í okkar landi (Eyrarskógarmegin) eru hins vegar upphaflega lagðir sem slóðar af Rarik og af þeim sökum kynni takmörkun okkar á aðgengi að vera á gráu svæði.
Ólafur (E-89) taldi að hann hefði sjálfur yfirráð yfir sínu landi og að umgengnisreglur í Eyrarskógi segðu í raun að svo væri. Í ljósi þess hlytum við líka að mega takmarka aðgang óviðkomandi inn á svæðið.
Spurt var (fundarritari náði ekki nafni fyrirspyrjanda) hvort ekki væri ætlunin að fá fast tilboð í fyrirhugaða framkvæmd þannig að ljóst væri hvað hún myndi kosta áður en hafðist yrði handa.
Formaður svaraði að leitað yrði eftir föstu tilboði í hlið og rafmagn en hins vegar ekki í jarðvegsvinnu og annað henni tengt. Nokkrir félagsmenn okkar eru fagmenn á þeim sviðum sem við þurfum að hafa þekkingu á til framkvæmdanna og aðrir hafa yfir vinnuvélum að ráða. Stjórnin hyggst leita til þessara aðila, sem og til almennra félagsmanna líkt og á vinnudegi að sumri, til að fá verkið unnið á sem ódýrastan máta.
Ingi Gunnar (E-83) lýsti sig ósáttan með fyrirhugaða kostnaðarskiptingu og vísaði þar til bréfs sem hann hafði sent félagsmönnum í tölvupósti fyrr um daginn. Þar rekur hann það sem í framkvæmdum við fjöleignarhús er kallað „sameign sumra“ og „sameign allra“. Vildi hann nota þá skilgreiningu í sambandi við skiptingu kostnaðar við hliðin, annars vegar Eyrarskógarmegin og hins vegar Hrísabrekkumegin. Varðandi nánari rökstuðning Inga Gunnars (E-83) vísast til skeytisins sem sent var félagsmönnum síðdegis þann 21. ágúst.
Fundarstjóri lýsti því yfir að hann hefði ákveðna samúð með sjónarmiðum Inga Gunnars (E-83) en sagði jafnframt að 9. grein félagslaga segði til um hvernig kostnaðarskiptingu skyldi háttað. Taldi hann því tillögu Inga Gunnars (E-83) brjóta í bága við samþykktir félagsins.
Ingi Gunnar (E-83) sagðist ekki sammála túlkun fundarstjóra þar sem að í lögum félagsins væri aðeins talað um kostnað (þ. e. það sem hann teldi sameiginlegan kostnað). Kostnaður við hlið er ekki sameiginlegur kostnaður sagði Ingi Gunnar (E-83).
Fundarstjóri sagði að félagsmenn störfuðu í einu sameiginlegu félagi og að samþykkt tillögu eins og þeirrar sem Ingi Gunnar (E-83) talaði fyrir myndi hafa áhrif á alla starfsemi félagsins. Með henni væri í raun verið að skipta félaginu í tvö aðskilin félög.
Formaður gat þess að stjórnin hefði í upphafi verið mjög óhress með ákvörðun Hrísabrekkufólks um að setja upp hlið á eigin vegum og þess vegna hefði stjórnin (sem um þessar mundir er eingöngu skipuð bústaðaeigendum Eyrarskógarmegin) í upphafi rætt um að setja bara upp eitt hlið, þ.e. Eyrarskógarmegin. Við nánari umfjöllun um málið komst stjórnin hins að þeirri niðurstöðu að það gæti ekki gengið, þar sem að með því myndi hún framkvæma það sem hún væri í reynd óánægð með, þ.e. vinnulag Hrísabrekkufólks varðandi uppsetningu á hliði s.l. vetur án nokkurs samráðs við stjórn félagsins. Ef reka á félagið sem eina heild verða almennar framkvæmdir, svo sem vegir og vatnsveita, og nú framkvæmdir við hlið að eiga jafnt við á báðum svæðum sagði formaður.
Guðbjarni (E-2) sagðist vilja leggja fram breytingartillögu sem tengdist kostnaðarskiptingu við fyrirhugaða framkvæmd. Hann sagði að við værum með eitt félag þar sem allir lóðarhafar væru meðlimir en ekki bara þeir sem væru þegar komnir með hús á sínum lóðum. Því velti hann því fyrir sér hvernig tryggja mætti að þeir lóðarhafar sem ekki hafa þegar byggt hús komi til með að greiða sinn kostnað í hliðframkvæmdunum þegar þar að kemur. Tillaga Guðbjarna (E-2) var svohljóðandi.
Félagsfundur Frístundafélags Eyrarskógar og Hrísabrekku samþykkir framkomna tillögu stjórnar um að reisa öryggishlið að innkeyrslum enda verði tryggt að greitt verði fyrir hverja lóð án stöðu bygginga á lóðunum og lögveð tekið í þeim lóðum og húsum sem ekki greiða kostnaðarhlutdeild sína á tilsettum tíma og fylgt verði eftir með lögsókn eða kröfunni lýst við nauðungarsölu innan árs frá stofnun hennar eins og áskilið er í samþykktum félagsins og lögum um frístundabyggð.
Fundarstjóri spurði í framhaldi af tillögu Guðbjarna (E-2) hvort tillaga stjórnar væri ekki nægjanleg (þar segir “Ef samþykkt verður að ráðast í þessar framkvæmdir er greiðsla á umræddu gjaldi forsenda þess að unnt sé að skrá viðkomandi með leyfi til umgengni um hliðið”).
Formaður gat þess einnig að innheimta gjalda af óbyggðum lóðum hefði í gegnum tíðina verið hörmuleg, af mörgum slíkum lóðum hefði aldrei verið greitt til félagsins og að reglulega hefði síðan þurft afskrifa kröfur sem þeim tengdust. Tillögu þá sem hér hefði verið kynnt taldi formaður einungis leiða til vinnu og kostnaðar fyrir félagið og engu skila. Tillaga stjórnar gerir ráð fyrir því að einungis þeir sem greitt hafa gjaldið fá “lykil” að hliði. Vilji þeir sem ekki hafa byggt hús á lóðum sínum fara um hliðið og að sinni lóð þurfa þeir að greiða framkvæmdagjaldið. Stjórn mun gæta þess að þeir sem ekki greiða það nú muni gera þegar þeir vilja fá aðgang.
Helgi (E-38) sagði að sér fyndist umræðan farin að snúast um aukaatriði. Hann kom á fund til þess að ræða og taka ákvörðun um hlið en ekki til þess að hlusta á umræður um alls konar lagaflækjur.
Benjamín (E-37) spurði hvort við gætum eða mættum loka aðgengi að svæðinu.
Formaður svaraði að eins og þegar hefði komið fram væri að mörgu að hyggja en að staðið yrði að framkvæmd eins og best verður á kosið og í samráði við alla aðila (Sveitarfélag, Jón bónda, sjúkra- og slökkvilið o.s. frv.).
Ólafur (E2-1) spurði hvort unnt væri að kaupa tryggingar og hvað gerðist ef Grjótá “tæki sprett”. Formaður sagði að stjórn myndi athuga með tryggingar en hvað Grjótá varðaði yrði að setja hliðin upp þar sem hentugast og öruggast væri samkvæmt ráðum þeirra sem best til þekkja og þannig að þau þjóni tilgangi sínum.
Að loknum þessum umræðum voru greidd atkvæði um fyrirliggjandi tillögu stjórnar. Atkvæðagreiðslan var skrifleg og var niðurstaðan eftirfarandi: Já 36, Nei 2, Auðir 3. Fundarstjóri lýsti því tillögu stjórnar um að ráðast í framkvæmdir samþykkta. Síðan voru greidd atkvæði um tillögu Guðbjarna (E-2) sem kynnt var hér að framan. Atkvæðagreiðsla um hana var gerð með handauppréttingu og fór á eftirfarandi veg: Já 16, Nei 21.
Þessu næst var rætt um önnur mál. Fundarstjóri hóf þá umræðu með spurningu til vatnsnefndar um það hvenær “nýi” vatnstankurinn færi í jörð. Sigmundur (E-31) svaraði að það yrði á næstu dögum. Verkið sagði hann hafa tafist vegna anna hjá Þórarni á Hlíðarfæti sem fenginn hefur verið til að framkvæma það.
Páll (E-23) sagði að eins og allir tækju eftir þá hefði gróður á svæðinu vaxið mikið á undanförnum árum. Hann vildi vekja athygli á því að samfara auknum gróðri fylgdi aukin eldhætta í miklum þurrkum eins og verið hafa undanfarið og ef að eldur kæmi upp þá væru flóttaleiðir fáar.
Fundarstjóri tók undir með Páli og sagði að orð hans væru viðvörun til okkar allra um að FARA VARLEGA MEÐ ELD. Um daginn kviknaði í einum af ruslagámunum að því að talið er vegna þess að grillkolum með glóð í var hent í gáminn. Mikilvægt er því einnig að huga að því sem við hendum í gámana.
Loftur (E-80) vildi beina því til fólks að gróðursetja ekki tré nær akvegum en í um 3 m fjarlægð. Tré vaxa fljótt í landinu og á örfáum árum fara þau að þrengja að umferð um vegi. Formaður gat þess í þessu samhengi að á vinnudegi hefði verið gengið með vegum og þær greinar klipptar sem lengst stóðu út í þá. Á næstu árum megum við reikna með frekari vinnu í þessa veru.
Spurt var (fundarstjóri náði ekki nafni fyrirspyranda) um “bláa húsið” í Hrísabrekkulandinu sem þar liggur undir skemmdum öllum til ama. Þar er drasl á lóðinni sem fokið getur og rúður brotnar. Hvoru tveggja skapar slysahættu og er til mikils lýtis á svæðinu sagði fyrirspyrjandi.
Guðbjörg (E-1) upplýsti að hún hefði talað við starfsmann sveitarstjórnar út af þessu og eins kvartað út af lóð við hliðina á sér þar sem allt væri í niðurníðslu. Ekkert hefði hins vegar gerst og taldi hún þetta algerlega óviðunandi. Kristleifur (H-28) sagði að hann vissi til þess að á næstunni ætti bjóða upp „húsið“ en ólíklegt væri að nokkur vildi kaupa það í því ástandi sem það nú er. Hann tók undir með Guðbjörgu að ekki væri unnt að sætta sig við núverandi stöðu.
Jón (E 50) bætti við að mál eins og þessi væru á ábyrgð skipulagsyfirvalda og að þau hefðu lagaleg úrræði hvað þetta varðaði. Þeim bæri því skylda til að sinna málum sem þessu.
Fundarstjóri lagði til að fundurinn beindi þeim tilmælum til stjórnar að hún krefðist þess við sveitarstjórn að hér yrðu gerðar lagfæringar. Var það samþykkt einróma af fundarmönnum.
Formaður fékk orðið og sagðist vilja víkja að nokkrum atriðum áður en fundi yrði slitið. Hann nefndi heimasíðu félagsins sem nýlega hefur verið sett upp (eyrarskogur.is) og bað félagsmenn vinsamlegast að setja ekki þar inn staðhæfulaust bull eins og nýlega hefur gerst. Taldi hann slíkt ömurlegt og ætti ekki að eiga sér stað. Þá vék hann að framkvæmdum við fyrirhugað hlið og sagði að í sambandi við þær þyrfti stjórnin að njóta liðsinnis og krafta fagmanna í félaginu sem og þeirra sem hafa yfir jarðvinnutækjum að ráða. Loks sagðist formaður vilja virkja fólk til starfa í uppstillingarnefnd og kvaddi þar til Önnu Karen (H-30) sem hann vildi að nældi sér í 1-2 aðra félaga til að starfa ásamt henni í uppstillingarnefnd þar sem fyrirsjáanlegar eru breytingar á stjórn á næsta aðalfundi. Í þessu sambandi nefndi formaður líka að ekki væri gott þegar allir stjórnarmenn kæmu öðru megin Grótár, þ.e. frá Eyrarskógarsvæðinu eins og staðan er nú.
Að loknum þessum orðum sleit formaður fundi.
Fundargerð verður send í tölvupósti og birt á heimasíðu félagsins „eyrarskogur.is“. Fundarmönnum er gefinn kostur á að gera athugasemdir innan 10 daga (í tölvupósti til fundarritara: osa@hafro.is) en þá verður fundargerðin undirrituð.